Fiskeldi – Aukning í september

Útflutningsverðmæti eldisafurða nam 5 milljörðum króna í september og er það met í útflutningi í september.

Á fyrstu 9 mánuðum ársins er útflutningsverðmæti eldisafurða komið í rúma 33,4 milljarða króna, sem einnig er met.

Það er um 22% aukning frá sama tímabili í fyrra. Aukningin er nokkuð meiri sé tekið tillit til gengisbreytinga, eða rúm 29%.

Þannig var gengi krónunnar að jafnaði 4% sterkara á fyrstu 9 mánuðum ársins en á sama tímabili í fyrra. Þetta má sjá í bráðabirgðatölum um vöruskipti í september sem Hagstofan birti nýlega.

Vafalaust má rekja þessa myndarlegu aukningu í september til laxeldis, líkt og mánuðina á undan.

Á fyrstu 8 mánuðum ársins hefur útflutningsverðmæti silungs, sem er að stærstum hluta bleikja, dregist saman um 22% á föstu gengi. Það má alfarið rekja til samdráttar í útfluttu magni, en hækkun afurðaverðs vegur þó eitthvað upp á móti.

Svipaða sögu er að segja af Senegalflúru, sem er einn verðmætasti matfiskur í heimi. Útflutningsverðmæti Senegalflúru hefur dregist saman um tæp 5% á föstu gengi á sama tíma og samdráttur í magni er rúm 14%.

DEILA