Fimm leikmenn Vestra í unglingalandslið í blaki

Blaksamband Íslands hefur tilkynnt um val á unglingalandsliðum drengja og stúlkna (U17), sem keppa munu á NEVZA mótinu í blaki, en þar taka Norðurlandaþjóðirnar þátt ásamt Englendingum.

Fimm ungmenni úr blakdeild Vestra voru valin í landsliðin, þau Svanfríður Guðný Þorleifsdóttir, Benedikt Stefánsson, Pétur Örn Sigurðsson, Kacper Tyszkiewicz og Sverrir Bjarki Svavarsson.

Landsliðsvalið var býsna umfangsmikið ferli og fleiri krakkar úr Vestra bönkuðu þar á dyrnar, sérstaklega í drengjaflokki enda er lið Vestra ríkjandi Íslands- og bikarmeistari í aldursflokki 16 ára og yngri.

Fyrsta umferð landsliðsvalsins fór fram í æfingabúðum sem Blaksambandið boðaði til í Reykjavík og Mosfellsbæ snemma í september og átti Vestri þar 7 fulltrúa í drengjaflokki og einn í stúlknaflokki.

Að þeirri æfingahelgi lokinni var valinn 17 manna úrvalshópur hjá hvoru kyni, sem boðaður var til æfinga á Akureyri skömmu síðar. Þar átti Vestri sex fulltrúa í drengjaflokki og einn í stúlknaflokki.

Næst var hópurinn skorinn örlítið niður og 14 stúlkum og 15 drengjum boðið í enn einar æfingabúðirnar, nú á Laugum í Þingeyjarsýslu. Þar voru sex fulltrúar frá Vestra, ein stúlka og fimm drengir.

Í lokahópnum, sem telur 12 leikmenn af hvoru kyni, á Vestri svo eins og áður segir fimm fulltrúa, eina stúlku og fjóra drengi, eða þriðjung drengjalandsliðsins.

Frábær frammistaða Vestra krakkanna í öllu þessu langa og stranga ferli er glæsilegur vitnisburður um það metnaðarfulla starf sem unnið er innan blakdeildar Vestra undir forystu Juan Escalona yfirþjálfara.

U 17 landsliðið drengja
U 17 landsliðið stúlkna
DEILA