BARÁTTAN GEGN KYNFERÐISOFBELDI í Vísindaporti

Föstudaginn 21. október flytur Hjálmar Sigmarsson, ráðgjafi á Stígamótum erindi sitt: BARÁTTAN GEGN KYNFERÐISOFBELDI: Að skapa brotaþola væna menningu í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða.

Undanfarin ár hefur umræðan um kynferðisofbeldi orðið meira áberandi og þróast heilmikið. Brotaþolar hafa í auknum mæli stigið fram og sagt frá því ofbeldi sem þau hafa orðið fyrir og afleiðingum þess, og aukist hefur að gerendur ofbeldis séu opinberaðir. Með opnari umræðu hefur krafan um stuðning við brotaþola orðið skýrari, auk þess eru gerendur ofbeldis kallaðir til ábyrgðar.

Stígamót, miðstöð fyrir brotaþola kynferðisofbeldis, hefur frá upphafi lagt áherslu á að öll umræða um kynferðisofbeldi sé brotaþolavæn, þ.e. að tekið sé mið af reynslu og þörfum þeirra sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi. Baráttan gegn kynferðisofbeldi og gegn nauðgunarmenningu felur í sér að skapa nýja menningu, þar sem brotaþolar upplifa stuðning og rétt á að leita sér hjálpar og réttlætis. Menning sem einnig kallar og styður gerendur ofbeldis í að taka ábyrgð á því ofbeldi sem þeir hafa beitt.

Hjálmar Sigmarsson, ráðgjafi á Stígamótum, mun segja frá áherslum Stígamóta í fræðslu- og forvarnamálum, þar á meðal forvarnarverkefninu Sjúkást og Bandamönnum – námskeiði fyrir karla sem vilja beita sér í baráttunni gegn kynferðisofbeldi. Hjálmar hefur unnið í jafnréttismálum í tæp tuttugu ár og er með mastersgráðu í mannfræði frá Háskóla Íslands og mastersgráðu í kynjafræði við CEU háskólann í Búdapest.

Vísindaportið er opið öllum og hefst stundvíslega klukkan 12:10 í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða á 2. hæð.

DEILA