79% munur á hæsta og lægsta verði af lambalæri

Samkvæmt verðkönnun ASÍ getur munað miklu á verði einstakra vörutegunda milli verslana. Þannig var hægt að finna 79% munur á hæsta og lægsta verði af lambalæri og 50% á túnfiski í dós í verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ á matvöru sem framkvæmd var mánudaginn 17. október.

Finna má mikinn mun á hæsta og lægsta verði í öllum vöruflokkum og oft á algengum eða mikið keyptum vörum. Sem dæmi var 34% munur á 300 gr. pakka af brauðosti í sneiðum frá MS. Lægst var verðið í Bónus, 898 kr. en hæst í Iceland, 1.199 kr. Þá var 40% munur á hæsta og lægsta verði af Lífskorn brauði frá Myllunni sem var ódýrast í Bónus, 498 kr. en dýrast í Iceland, 699 kr. Fleiri dæmi um mikinn verðmun á algengum vörum í könnuninni eru 79% munur á hæsta og lægsta kílóverði af lambalæri, 45% á kílóverði af laxaflökum, 117% munur á kílóverði af frosnu mangói, 47% mun á Barilla pasta skrúfum.

Iceland var oftast með hæsta verðið, í 51 tilfelli en Heimkaup næst oftast, í 45 tilfellum, Hagkaup í 26 tilfellum og Fjarðarkaup í 14 tilfellum. Bónus var oftast með lægsta verðið í 86 tilfellum, Krónan í 20 tilfellum og Fjarðarkaup í 17 tilfellum.

Með því að skoða hlutfallslegt frávik frá lægsta verði hverrar vöru má raða verslununum eftir því hversu langt verð á vörum í könnuninni var að meðaltali frá lægsta verði. Verð í Bónus var að meðaltali 2,7% frá lægsta verði en verð í Krónunni 6,9% og Nettó 9%. Verð í Heimkaup var aftur á móti að meðaltali 34% frá lægsta verði og verð í Iceland 29,3% frá lægsta verði. 

ATH: Súlurnar sýna hversu langt viðkomandi verslun var að meðaltali frá lægsta verði. Ef verslun hefði allaf verið með lægsta verð fengi hún gildið 0. 
DEILA