Verkís telur ekkert athugavert við trjákurl á lóð Eyrarskjóls

Í minnisblaði sem Verkfræðistofan Verkís hefur lagt fram vegna notkunar á trjákurli á lóð leikskólans Eyrarskjóls á Ísafirði kemur fram að ekkert sé athugavert við notkun á trjákurli í fallvörn á leikskólalóðinni.

Verkís segir að valið hafi verið trjákurl úr náttúrulegum skógar- og/eða grisjunarviði án fúavarnar og annarra mengandi efna.

Samkvæmt staðli er mælt með að stærð trjákurls sé á bilinu 5 – 30mm og á trjáberki 20 – 80mm. Stærð á kurlinu sem varð fyrir valinu er á þessu bili. Til að tryggja dempun var ákveðið að hafa þykkt á laginu meiri en þörf er á við þessa fallhæð eða 30cm sem er viðmið fyrir fall úr allt að þriggja metra hæð.

Innflutt kurl var ekki skoðað því með erlendu kurli fylgja mögulega lífverur sem hafa ekki tekið sér bólfestu hér á landi, eru hugsanlega slæmar fyrir íslenskar aðstæður og gætu skaðað lífríkið hér.

Í reglugerð um öryggi leikvalla og leiksvæða er um þetta fjallað og er greinin svohljóðandi:  „Yfirborðsefni eru þau efni sem notuð eru á yfirborði leiksvæða, svo sem gras, möl, sandur, hellur, malbik, timburpallar og samsvarandi. Einnig yfirborðsefni sem hafa eiginleika til dempunar falls eins og fín rúnuð möl, grófur sandur, trjákurl og öryggishellur, sbr. ÍST EN 1177.“

Sömu upplýsingar varðandi dempandi yfirborðsefni, þar á meðal trjákurl, er að finna í leiðarvísi sem Umhverfisstofnun gaf út og heitir ÖRYGGISVÍSIR LEIKSVÆÐA.

DEILA