Þjóðfræðistofa á Ströndum og háskóli í München fá veglegan rannsóknarstyrk

Fyrir nokkrum árum hafði rannsóknarmaður hjá Háskólanum í München, Dr. Matthías Egeler, samband við Háskólasetur Vestfjarða vegna vinnuaðstöðu.

Þó að hann hefði vissulega verið meira en velkominn þangað benti forstöðumaður Háskólaseturs honum á sérhæfingu Þjóðfræðistofu og á forstöðumann hennar, Jón Jónsson. Það er markmið Háskólasetursins að efla vísindi, rannsóknir og kennslu á háskólastigi á öllum Vestfjörðum, ekki bara innan veggja Háskólasetursins sjálfs.

Matthías Egeler dvaldi langdvölum hjá Þjóðfræðistofu og lét vel af starfi sínu þar.  

Á endanum sóttu þeir Jón Jónsson og Matthías saman um styrki. Matthías er miðaldarfræðingur og trúarbragðasagnfræðingur, en Jón er fræðimaður á sviði þjóðsagna, munnmæla og þjóðhátta.

Þeir hafa nú fengið styrk í þriggja ára rannsóknarverkefni sem mun draga fram tengslin milli frásagnahefða og þjóðtrúar á norðanverðum Ströndum.

Hluti af þessari styrkveitingu er fullfjármögnuð doktorsnemastaða  á þessu sviði.

Ráðningin verður hjá Háskólanum í München/Bæjaralandi, en doktorsneminn mun starfa hluta árs á Ströndum og er krafist haldbærrar íslenskukunnáttu.

DEILA