Samningar um aukið framboð á húsnæði í undirbúningi

 „Nú verða allir að róa í sömu átt og leggja allt kapp á að tryggja aukið framboð íbúða. Jafnvægi á húsnæðismarkaði er nauðsynlegt til þess að skapa húsnæðisöryggi, hagstætt vaxtaumhverfi til lengri tíma og verja efnahag heimilanna.“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra en sameiginlegt átak ríkis og sveitarfélaga um stóraukið framboð íbúða á næstu árum hófst formlega í dag.

Húsnæðis og mannvirkjastofnun mun á næstu vikum, fyrir hönd ríkisins, vinna með sveitarfélögum við að meta núverandi húsnæðisáætlanir, greina tækifæri til frekari uppbyggingar og gera samninga um slíkar áætlanir.

Samningarnir munu kveða á um fjölda íbúða, íbúðagerð og staðsetningu til að skapa fyrirsjáanleika til næstu ára. Samkvæmt húsnæðisáætlunum fyrir árið 2022 er aðeins gert ráð fyrir um 16.000 nýjum íbúðum á fimm árum. Á sama tíma verður farið yfir áskoranir sem sveitarfélögin standa frammi fyrir vegna aukinnar uppbyggingar og endurmat á íbúðaþörf. 

Rammasamningur sem undirritaður var í júlí sl. kveður á um að fjölga íbúðum um 20.000 á fimm árum og 35.000 á tíu árum, þar af verði 30% nýrra íbúða hagkvæmar á viðráðanlegu verði og 5% íbúða félagsleg húsnæðisúrræði.

DEILA