Rannsóknir á svömpum

Sérfræðingar í svampdýrum við Þekkingarsetrið í Sandgerði

Á vef Hafrannsóknarstofnunar er sagt frá því að dagana 8.–19. september hafi sjö erlendir sérfræðingar í svampdýrum (Porifera) komið til Íslands í boði Náttúrufræðistofnunar Íslands í þeim tilgangi að greina svampdýr.

Árin 1991 – 2004 var safnað á vegum botndýraverkefnisins (BIOICE), miklu magni af svampdýrum á 579 stöðvum víðsvegar innan 200 mílna efnahagslögsögu Íslands. Lítill hluti þessa efniviðar hefur verið rannsakaður til hlítar. Þó er vitað um 193 tegundir svampdýra á Íslandsmiðum, en vafalítið eru þær umtalsvert fleiri.

Sýnasafnið úr botndýraverkefninu gefur færi á að kortleggja útbreiðslu svampdýrategunda og þar með fylgni við ýmsa umhverfisþætti, svo sem sjávardýpi, hitastig, seltu, botnstrauma og togveiðiálag.

Stórvaxnir svampar þekja allstór svæði á sjávarbotni og mynda þar sérstaka vistgerð, svonefndan svampabotn eða „ostabotn“.

Sennilega er tilveru stórsvampa einna mesta ógnað af botnskarki með veiðarfærum. Rannsóknir á lífríki á malarbotni og hörðum botni sýna skerta tegundafjölbreytni og að lítið er af stórsvömpum á togslóð, samanborið við nálæg svæði sem eru laus við botnskark.

Viðkvæmastir eru stórvaxnir og stífir svampar, sem rifna upp eða brotna við að lenda í veiðarfærum. Á ósnortnum botni hafa botntroll fyllst af ,,osti“.

Í gagnagrunni Hafrannsóknastofnunarinnar eru upplýsingar um að stórsvampar í afla hafi verið allt að 15 til 20 tonn.

Togveiðarfæri geta þyrlað upp töluverðu magni af gruggi sem skerðir verulega lífslíkur svampa. Næringarnám þeirra byggist á því að dæla sjó í gegnum skrokkinn eftir örfínum rásum og sía smágerðar fæðuagnir úr sjónum. Fíngert grugg getur hæglega stíflað síunarkerfi svampa svo þeir þrífast illa eða drepast. Lítið er vitað hvort eða hversu langan tíma það tekur stórsvampa vaxa upp í fyrri stærð, en líklegast tekur það áratugi eða aldir.

DEILA