Mjólkurverð til bænda hækkar

Verðlagsnefnd búvara hefur tekið ákvörðun um hækkun lágmarksverðs mjólkur til bænda og heildsöluverðs mjólkur og mjólkurafurða sem nefndin verðleggur.

Eftirfarandi verðbreyting mun taka gildi þann 1. september 2022:
Lágmarksverð 1.fl. mjólkur til bænda hækkar um 4,56%, úr 111,89 kr./ltr í 116,99 kr./ltr.

Eftirfarandi verðbreyting mun taka gildi þann 8. september 2022:
Heildsöluverð mjólkur og mjólkurvara sem nefndin verðleggur hækkar almennt um 3,72%.

Verðhækkunin er til komin vegna kostnaðarhækkana við framleiðslu og vinnslu mjólkur frá síðustu verðákvörðun í mars sl. með gildistöku 1. apríl 2022. Frá síðustu verðákvörðun til septembermánaðar 2022 hafa gjaldaliðir í verðlagsgrundvelli kúabús hækkað um 4,56%. Á sama tímabili hefur vinnslu- og dreifingarkostnaður afurðastöðva hækkað um 2,67% og er það grundvöllur hækkunar heildsöluverðs auk hækkunar á afurðaverði.

Verðlagsnefnd búvara er skipuð og starfar ákvæðum búvörulaga. Nefndin er skipuð sex mönnum og ákveður afurðaverð til búvöruframleiðenda og verð búvara í heildsölu. 

Samtök launþega tilnefna tvo fulltrúa í nefndina. Skal annar þeirra tilnefndur af stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og hinn af stjórn Alþýðusambands Íslands. Noti annar aðilinn ekki tilnefningarrétt sinn færist réttur hans til hins.

 Stjórn Bændasamtaka Íslands og stjórnir búgreinasamtaka, sem hlotið hafa viðurkenningu skv. 4. gr. búvörulaga og starfa fyrir búgreinafélög þeirra afurða sem verðlagðar eru hverju sinni, tilnefna tvo fulltrúa og samtök afurðastöðva fyrir búvörur tilnefna tvo fulltrúa í nefndina. 

DEILA