Kortlagning hafsbotnsins

Leiðangursmenn á rannsóknaskipinu Árni Friðrikssyni kortlögðu í ágústmánuði alls um 8.964 ferkílómetra hafsvæði vestan við Látragrunn, á Dohrnbanka og á Selvogsbanka.

Leiðangur Árna Friðrikssonar stóð yfir 3.-26. ágúst 2022 og er hluti af átaksverkefni Hafrannsóknastofnunar um kortlagningu hafsbotns í efnahagslögsögu Íslands.

Markmiðið er að afla þekkingar sem nýtast mun á ýmsan hátt og er forsenda frekari vísindarannsókna við nýtingu, vernd og rannsóknir auðlinda í hafinu, á hafsbotni og undir hafsbotni. Að þessu sinni var markmið sett að kortleggja veiðislóðir á Vestfjarðamiðum í tengslum við veiðiálag síðastliðinna ára og togstöðva í verkefninu Stofnmælingu botnfiska.

Í fyrsta hluta leiðangursins var fyllt upp í þekju vestan við Látragrunn (mynd 1), þar sem jökulgarðurinn sem nefndur er „Brjálaði hryggurinn“ var mældur árið 2011, í tengslum við hrygningarstöðvar steinbíts á Látragrunni og mögulegum búsvæðum kórala. Í kantinum við hrygginn sjást plógför ísjaka á allt að 600 metra dýpi. Undan kantinum er um 14 km langur hryggur sem liggur í NV-SA og rís ~60 metra af hafsbotninum. Hugsanlegar aurkeilur sjást í kantinum á austanverðu mælingasvæðinu. Á dýpsta svæðinu er botnharkan mjög lág sem gefur til kynna að þar hefur töluvert magn af mjúku seti sest til í lægðum.

Í öðrum hluta leiðangursins var stefnan tekin norðvestur á Dohrnbanka (mynd 1). Þar voru mörkin dregin við miðlínu efnahagslögsögunnar og fjölgeislamælingar frá mælingaárinu 2002. Miklar sviptingar í ástandi sjávar gerðu yfirferð fjölgeislamælinga mjög erfiða. Vegna veðurs tókst ekki að ljúka mælingum á Dohrnbanka, en til stóð að tengja þær saman við eldri mælingar í Grænlandssundi.

Botnlag á Dohrnbanka er mjög fjölbreytt. Meðal þess sem sést í fjölgeislagögnunum eru stórir hryggir og farvegir sem kvíslast niður á víðáttumikla sléttu sem ber mikil ummerki um plógför ísjaka.

Í þriðja og síðasta hluta leiðangursins var hafsvæðið á Selvogsbanka mælt.

Nú fimm árum eftir að átaksverkefnið hófst hafa um 44,3% efnahagslögsögunnar verið kortlögð eða liðlega 333.700 ferkílómetrar af alls 754.000 ferkílómetra efnahagslögsögu landsins.

DEILA