Hvar starfa ríkisstarfsmenn

Stöðugildi á vegum ríkisins voru 26.610 þann 31. desember 2021, þar af voru 17.100 (64%) skipuð af konum og 9.511 (36%) af körlum.

Byggðastofnun hefur frá áramótum 2013/2014 gert árlega könnun á staðsetningu starfa á vegum ríkisins. Með störfum á vegum ríkisins er átt við stöðugildi greidd af Fjársýslunni, stöðugildi hjá opinberum hlutafélögum og stofnunum og stöðugildi hjá stofnunum sem hafa meirihluta rekstrartekna sinna af fjárlögum. Miðað er við hvar störfin eru unnin, en ekki búsetu starfsfólks.

Á árinu 2021 fjölgaði stöðugildum um 1.328 á landsvísu eða 5,3%. Þetta er mesta fjölgun milli ára frá því Byggðastofnun hóf að greina fjölda ríkisstarfa. Mest fjölgun stöðugilda var hjá Landspítala, ISAVIA, Háskóla Íslands, Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Á Vestfjörðum fjölgaði stöðugildum um 25 eða 5,5% árið 2021 og var fjölgunin að mestu bundin við Ísafjarðarbæ og Bolungarvík. Í Ísafjarðarbæ fjölgaði stöðugildum um 21 eða 6,5%, mest vegna Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og Vegagerðarinnar. Í Bolungarvíkurkaupstað fjölgaði stöðugildum um fimm eða 23,8% og voru þau aðallega á vegum Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og Háskóla Íslands. Stöðugildum fjölgaði um eitt í Vesturbyggð en fækkaði um eitt í Strandabyggð og í Reykhólahreppi. Í Kaldrananeshreppi fækkaði stöðugildum úr einu í núll.

Ríkisstarfsmenn á Vestfjörðum 2014-2021

DEILA