Hálf öld frá 50 mílna útfærslunni

Guðmundur Kjærnested, skipherra, um borð í varðskipinu Ægi

Í dag 1. september eru fimmtíu  ár liðin frá því að fiskveiðilögsagan var færð út í 50 sjómílur.

Togvíraklippur voru helsta vopn Landhelgisgæslunnar í þorskastríðunum 1972 og 1975.

Þeim var fyrst beitt 5. september 1972 kl. 10:25. Þann dag kom varðskipið Ægir að togara að veiðum norðaustur af Hornbanka. Togarinn var ómerktur, járnplötur soðnar yfir nafn og númer og enginn þjóðfáni sjáanlegur. Einnig var málað yfir einkennisstafina á reykháfi.

Frá september 1972 til nóvember 1973 tókst íslensku varðskipunum að beita þeim með árangursríkum hætti í 82 skipti gegn breskum togurum sem voru að veiðum innan 50 mílna markanna.

Í fjölmiðlum 1. september 1972  sagði m.a. að við útfærsluna stækkaði yfirráðasvæði íslendinga um 141 þús ferkilómetra og væri  landhelgin þá tvöföld stærð landsins.

Þar segir einnig að Íslendingar færðu út fiskveiðilögsöguna til að tryggja skynsamlega hagnýtingu fiskimiðanna i þágu allra þeirra sem þurfa fiskafurðir til lífsviðurværis, beint og óbeint. Þjóðin verði standa sameinuð um að nýta fiskimiðin vel og skynsamlega. Varðskipin verði vegna þess bakhjarl og framvörður þjóðarinnar. 

DEILA