Fundað um menntastefnu Vestfjarða

Í Sóknaráætlun Vestfjarða er mikil áhersla lögð á hækkun menntunarstigs Vestfjarða og meðal áherslumála er gerð menntastefnu fyrir Vestfirði.

Undirbúningsfundir verða á eftirtöldum stöðum:

Patreksfirði, mánudaginn 3. október kl. 15:00 í Safnaðarheimilinu

Hólmavík, þriðjudaginn 4, október kl. 14:00 í Félagsheimilinu og

Ísafirði, miðvikudaginn 5. október kl. 15:00 í sal Grunnskólans á Ísafirði

Markmið verkefnisins er að greina stöðu, strauma og stefnur til að móta sameiginlega framtíðarsýn og aðgerðaáætlun um hvernig megi efla skólastarf frá leikskóla til háskóla.

Samfélagsbreytingar eru að verða á Vestfjörðum vegna bættra samgangna og breytinga í atvinnulífi. Takast þarf á við áskoranir vegna breytinga í samsetningu íbúa, fjölgunar íbúa af erlendum uppruna, vegna loftslagsbreytinga og breytinga sem tengjast fjórðu iðnbyltingunni.

Skoða þarf strauma og stefnur í samhengi við sviðsmyndir um mögulega þróun atvinnulífs og mannlífs.

Öll þau sem hafa áhuga á menntamálum erum velkomin og hvött til að taka þátt.

Verkefnið er samstarfsverkefni Vestfjarðastofu, Menntaskólans á Ísafirði, Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða og Háskólaseturs Vestfjarða.

DEILA