Frá Vesturbyggð til Venesúela – Vestfirskar heimsbókmenntir

Vestfirðir hafa löngum verið líflegur bókmenntaheimur, ekki bara sem sögusvið, heldur sem heimkynni og vinnustaður starfandi rithöfunda, bæði fólks sem er uppalið á svæðinu og annarra sem hafa tekið það í fóstur.

Vonir standa til þess að vestfirsk heimsbókmenntakvöld geti orðið að reglulegum viðburði þar sem lögð verður áhersla á höfunda á og frá Vestfjörðum auk bóka sem gerast á svæðinu.

Á þessu fyrsta kvöldi vestfirskra heimsbókmennta í Edinborgarhúsinu sem verður haldið FIMMTUDAGUR, 6. OKTÓBER 2022 KLUKKAN 20:00 mæta til leiks fimm höfundar sem hafa allir ólíka tengingu við svæðið og ólíkan uppruna.

Höfundarnir fimm eru:

Satu Rämö frá Finnlandi hefur nýverið skrifað sinn fyrsta krimma, sem gerist einmitt á Ísafirði.

Helen Cova frá Venesúela hefur verið búsett á Flateyri og Þingeyri síðustu ár og gefið út bæði barna- og fullorðinsbækur og er við það að standsetja forlag á Flateyri sem sérhæfir sig í rómansk-amerískum bókmenntum.

Eiríkur Örn Norðdahl er uppalinn Ísfirðingur frá Kópavogi, Akranesi, Iserlohn og Norðurárdal.

Birta Ósmann Þórhallsdóttir smásagnahöfundur og ljóðskáld rekur bókaforlagið Skriðu á Patreksfirði.

Greta Lietuvninkaite kemur frá Litháen en auk þess að kenna ritlist á Ísafirði hefur hún gefið út vinsæla bók sem fjallar meðal annars um Ísland og Lithaén.

DEILA