Súgandafjörður: Minningarganga

Í tilkynningu frá þeim sem stóðu að björgun fugla þegar olíuslys varð á Suðureyri í mars síðastliðnum segir:

Í mars 2022 gerðist það að um 10.000 lítrar af olíu runnu frá olíutanki Orkubús Vestfjarða, niður í tjörnina á Suðureyri þar sem hún átti svo greiða leið niður í sjóinn og hafnarsvæðið.

Mikið fuglalíf er á Suðureyri og hafa margir æðarblikar og kollur, náttstað sinn þar.

Fleiri hundruð fuglar lentu því miður í olíunni og ljóst var að aldrei yrði hægt að bjarga þeim öllum. Fyrir samtakamátt Súgfirðinga var sett á laggirnar “Fuglabjörgunarmiðstöð” þar sem fuglum var hjálpað og þeir hreinsaðir.

Súgfirðingar komu færandi hendi með handklæði, loðnu, sápu og margt fleira sem gagnaðist við björgun fuglanna og margir höfðu samband víðsvegar af landinu til að bjóða fram aðstoð sína. Því miður fór sem fór og ekki var unnt að bjarga fuglunum.

Til að heiðra minningu fuglanna verður myndaður hringur í kringum 100 fermetra Æðarfugl á fótboltavellinum, loftmyndir verða teknar með dróna. Minningarganga verðun gengin frá Félagsheimilinu á Suðureyri og á fótboltavöllinn, gengið verður með litla krossa.Við vonum að minningarathöfninni heiðrum við minningu fuglanna og að athygli verði vakin á mikilvægi þess að verkferlar og viðbragðsáætlanir þurfi að vera til staðar er svona lagað kemur upp og hversu mikilvægar fyrirbyggjandi aðgerðir eru, til að svona mengunarslys gerist aldrei aftur.

Gangan fer fram á morgun laugardag.

Kl.12.31 ANDA GANGA. Lagt af stað frá FSÚ að fótboltavelli
Kl.12.46 ENDURNAR OKKAR. Fótboltavöllur, 45 mín.