Stofnfundur Stúdentagarða Háskólaseturs Vestfjarða

Stjórn Háskólaseturs Vestfjarða hefur sett á stofn húsnæðissjálfseignarstofnun vegna byggingar stúdentagarða fyrir Háskólasetrið.

Boðaður stofnfundur fór fram á þriðjudaginn 16. ágúst. Húsnæðissjálfseignarstofnunin mun sinna byggingarframkvæmd og rekstri nýrra leiguíbúða fyrir námsmenn. Háskólasetur Vestfjarða er eini stofnaðilinn og leggur fram 1 milljón kr. í stofnfé.

Háskólasetrið hefur tilnefnt í fulltrúaráð stofnunarinnar 8 fulltrúa af Vestfjörðum sem hafa fjölbreyttan bakgrunn, enda var lögð áhersla á að hafa breiðan hóp úr samfélaginu í fulltrúaráði. Þar að auki voru tilnefndir 4 fulltrúar íbúa sem eru nemendur eða fv. nemendur við Háskólasetur Vestfjarða. Í stjórn nýrrar húsnæðissjálfseignarstofnunar sitja: Halldór Halldórsson, forstjóri Íslenska kalkaþörungafélagsins, -fyrrverandi stjórnarformaður Háskólaseturs Vestfjarða og fyrrverandi bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðarstofu og Hildur Dagbjört Arnardóttir landslagsarkítekt. Varamaður í stjórn er Karl Ásgeirsson, Skaginn3x.

Á stofnfundinum kom fram að húsnæðisskortur á Ísafirði er orðinn að flöskuhálsi sem gæti hamlað frekari þróun í starfsemi Háskólasetursins og var því að tilstuðlan Vestfjarðarstofu unnið að umsókn um stofnframlag til byggingar nýrra íbúða.

Það er Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða sem hefur haft veg og vanda að undirbúningi við stofnun húsnæðissjálfseignarstofnunarinnar

Umsókn Háskólaseturs Vestfjarða um stofnframlag hefur verið samþykkt af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Það er ljóst að mikil þörf er á leiguhúsnæði fyrir nemendur í Ísafjarðarbæ en samkvæmt húsnæðisáætlun Ísafjarðarbæjar eru nú þegar 70 manns á biðlista eftir leiguhúsnæði fyrir námsmenn.

Íbúðirnar verða 40 talsins og munu því anna stórum hluta núverandi eftirspurnar. Reiknað er með að á hverjum tíma verði um 75-80 nemendur búsettir á Ísafirði, en Háskólasetrið náði þessum fjölda í fyrra í fyrsta skipti.

Björtustu vonir gera ráð fyrir að um 13 mánuðir líði frá upphafi framkvæmda og þar til íbúðir verða teknar í notkun.

DEILA