Sandeyri

Á Sandeyri var stórbýli lengi. Þar voru 26 heimilisfastir 1703 og 1801 bjuggu þar 19 manns á þremur bæjum.

Á Sandeyri var háð svonefnt „Sandeyrarslag“ 14. október árið 1615 þegar Spánverjar voru eltir uppi og drepnir. Spánverjar höfðu áður dregið á land nokkra hvali á Sandeyri og komið þar upp vísi að hvalveiðistöð.

Jón Guðmundsson lærði tók upp varnir fyrir Spánverjana er voru drepnir í Æðey og á Sandeyri haustið 1615. Hann hafði kynnst Spánverjunum, sem voru raunar bæði spænskir og franskir Baskar, í Trékyllisvík á Ströndum og bar þeim vel söguna. Hann gaf út ritið Sanna frásögu af spanskra manna skipbrotum og slagi þar sem hans lýsir andúð sinni á verkanði Ara sýslumanns í Ögri og hans manna. Jón uppskar ævilanga útskúfun embættismannavaldsins fyrir vikið og var á hrakningi upp frá því.

Á fyrstu tugum 20. aldar bjuggu Tómas Sigurðsson og Elísabet Kolbeinsdóttir á Sandeyri stóru búi og löngum var þar útræði, stundum fleiri en einn bátur. Steinsteypt hús var á Sandeyri, byggt 1908 og stendur það enn (2002). Hin síðari ár hefur það verið notað sem slysavarnaskýli. Sandeyrarhúsið er tvær hæðir, klætt með panel að innan.

Vatnsaflsrafstöð frá Bræðrunum Ormsson hf. var sett þarna upp 1929. Fínar ljóskrónur voru í loftum og rafmagnseldavél, sem ekki var þó alltaf hægt að nota þegar vatnsrennsli var lítið. Tómas flutti frá Sandeyri 1943, en síðasti ábúandi þar var Jóhann Kristjánsson. Hann flutti í burtu 1952.

Af vefsíðu Snjáfjallaseturs

DEILA