Samúel í Selárdal

Samúel Jónsson fæddist árið 1884 í Arnarfirði á bænum Horni. Foreldrar hans voru hjónin Jón Þorsteinsson og Guðríður Guðmundsdóttir. Það má með sanni segja að líf hans hafi ekki verið neinn dans á rósum. Samúel missti föður sinn þegar hann var fjögurra ára gamall og flutti þá með móður sinni á Barðaströnd. Hann var barn að aldri þegar móðir hans gerðist ráðskona hjá Sr. Lárusi Benediktssyni í Selárdal. Þar upplifði Samúel mikið harðræði og var haldið fast að vinnu að þeirra tíma hætti.  

Eftir dauða Sr. Lárusar gerðist Samúel fyrirvinna móður sinnar og fengu þau ábúð á hjáleigunni Tóft sem var ein af fjórum hjáleigum innan túns í Selárdal. Þar undi hann aðeins skamma hríð og fékk í kjölfarið heimild til að byggja nýbýli á Selárdalslandi. Það reisti Samúel frá grunni og kallaði Fossá. Sér þar enn fyrir húsatóftum og heimtröð. Þarna bjuggu mæðginin í nokkur ár en fluttu síðan að Neðri-Uppsölum í Selárdal. Þar lést móðir hans árið 1916. 

Eftir andlát móður sinnar tók Samúel sér ráðskonu að nafni Salóme Samúelsdóttir en þau hófu búskap saman á jörðinni Krossdal í Tálknafirði, bjuggu þar frá 1927-1947. Þar mun Samúel hafa byggt upp bæjar- og fjárhús eins og víðast hvar sem hann bjó í lengri eða skemmri tíma. Þau hjónin eignuðust saman þrjú börn sem öll létust á unga aldri. 

Árið 1947 fluttu þau hjónin í Selárdalinn og fengu þar til leigu eina af hinum gömlu hjáleigum staðarins niðri við sjóinn. Fljótlega eftir það lést Salóme. 

Samúel bjó í Selárdal í um 22 ára skeið lengstum einn síns liðs. Þennan stað, sem áður hét Melstaður, kallaði Samúel Brautarholt. Þar byggði hann íbúðarhús, kirkju og listasafn og gaf sér tíma til að sinna hugðarefnum sínum og listsköpun sem fram að þessu höfðu lengstum orðið að víkja fyrir búksorgum og brauðstriti.  

Samúel var meðalmaður á hæð, grannur vexti, fríður sýnum, með glóbjart hár og skegg. Hann var ætíð snyrtilegur til fara, kvikur í öllu hreyfingum, annálaður göngumaður og hljóp léttilega við fót. Sagt var að enginn væri fljótari í ferðum en hann enda oft til hans leitað þegar mikið lá við svo sem þegar sækja þurfti ljósmóður eða lækni. Allt hans yfirbragð var glaðlegt og góðmannlegt, enda var öllum vel til hans og þótti Samúel með eindæmum greiðvikinn. Hann var fróður um margt og allvel lesinn, léttur í máli og þótti segja vel frá. 

Lengstum var Samúel heilsuhraustur en þegar hann var um áttrætt og sjónin farin að daprast dvaldi hann vetrarlangt hjá vinafólki sínu í sveit og að vori var hann aftur kominn til Selárdals og sinnti þar hugðarefnum sínum og listsköpun. Hann hafði yndi af því að sýna gestum og ferðalöngum listaverk sín og byggingar. Samúel var talinn langt á undan sinni samtíð. Sem dæmi má nefna byggði hann upp salernisaðstöðu fyrir ferðamannastrauminn sem lagði leið sína í Selárdalinn til að virða fyrir sér listaverk hans og byggingar. 

Margur undraðist hvað þessi ólærði, fátæki, hæverski maður með tvær hendur tómar hafði getað komið í verk á Brautarholti. Svo kom að því að hann missti sjónina og lifði hann tvö seinustu æviár sín á sjúkrahúsinu á Patreksfirði. Sem fyrr var hann afar vel látinn af öllum sem honum kynntust. 

Samúel Jónsson, listamaðurinn með barnshjartað kvaddi þennan heim árið 1969.

Af vefsíðunni samueljonssonmuseum.jimdofree.com

DEILA