Rómantík með pönk-ívafi í Dagverðardal

Alsæll sumarhúseigandi, Heiðrún Björk Jóhannsdóttir, með hjólbörurnar.

Vefritið sumarhusid.is segir frá hjónunum Heiðrúnu Björk Jóhannsdóttur og Lúther Ólasyni sem eiga um 70 fm sumarbústað á Dagverðardal. Þau rifu gamlan og ónýtan bústað sem var á sömu lóð sem þau keyptu árið 2016. Hjónin eiga bæði uppruna að rekja til Vestfjarða en búa í Garðabæ.

Í viðtali við sumarhusid.is segir Heiðrún „Ég held að staðurinn hafi valið okkur frekar en við staðinn,“ segir Heiðrún.

Ekki hafi verið á dagskrá að kaupa sumarbústað þótt þau hafi oft rætt að það væri bæði gott og gaman að eiga íbúð eða íverustað á Ísafirði. „Við gerðum samt ekkert í því en sáum svo bústað auglýstan í bæjarblaðinu, ákváðum að slá til og hikuðum hvergi!“ Heiðrún er fædd og uppalin á Ísafirði og Lúther ólst upp á Flateyri frá unglingsaldri. Öll fjölskylda Heiðrúnar býr á Ísafirði og þau hjón eiga marga vini á svæðinu.

Gamla húsið á þeim tímapunkti sem þau keyptu það fyrir 6 árum. 

Sumarhúsið sem þau keyptu var í raun gamalt og ónýtt. „Það var því miður orðið svo fúið að það var engin leið að bjarga því og svo hafði orðið vatnstjón veturinn á undan svo að komin var bleyta í allt í ofanálag. Því var ekkert annað í stöðinni en að rífa húsið. Það var voða krúttlegt og lítið, týpískt sumarhús, panilklætt með blómagardínum og grónum garði,“ segir Heiðrún og bætir við að þau hafi nýtt húsið sem vinnuskúr og kaffistofu á meðan þau byggðu gestahúsið og svo rifu þau það sumarið 2019.

DEILA