Nýsköpunarhemill – Hvað er nú það?

Nýsköpunarhemillinn Startup Westfjords 2022 á Þingeyri verður haldinn yfir tvær helgar í haust og að þessu sinni er yfirskriftin „Frá hugmynd til framkvæmdar“.

Á hemlinum geta þátttakendur þróað viðskiptahugmynd, hversu skýr eða óskýr sem hún er í upphafi og er dagskráin miðuð að því að fólk fái tíma til að njóta umhverfisins og komast í gott flæði.

„Hin stórbrotna náttúra Dýrafjarðar hefur gefið fólki tækifæri til að leysa sköpunarkraftinn úr læðingi. Við köllum þetta hemil en ekki hraðal vegna þess að hér er jafnframt kyrrð og ró til að einbeita sér, fá skýrari sýn og leggja niður við sig hver næstu skref eru“, segir Birta Bjargardóttir, Blábankastjóri, sem skipuleggur verkefnið.

Dagskráin stendur yfir helgarnar 24.-25. september og 1.-2. október og gefst þátttakendum tækifæri til að dvelja á Þingeyri vikuna á milli og hafa vinnuaðstöðu í Blábankanum.

„Blábankinn er nýsköpunar- og samfélagsmiðstöð á Þingeyri þar sem er hægt að leigja aðstöðu til lengri eða skemmri tíma í fjölbreyttu samvinnurými sem býður upp á  háhraðatengingu, sólarhringsaðgang og auðvitað stórkostlegt útsýni.“

Á nýsköpunarhemlinum verður farið skilmerkilega í gegnum fyrstu skrefin við stofnun fyrirtækis, hvernig þróa á hugmynd yfir í söluvænlega afurð og tekjulind og ná augum og eyrum markhópsins sem og samfélagsins. Öll eru velkomin að sækja um þátttöku en umsóknarfrestur er til og með 31. ágúst.

Ráðgjafar á Startup Westfjords koma jafnan frá ýmsum sviðum atvinnulífsins og í ár verða fyrirlesarar m.a. Erla Símonardóttir, fjármálastjóri Búseta og áður hjá Deloitte; Gunnar Thorberg, markaðssérfræðingur og einn eigenda Kapals; Agnes Arnardóttir, verkefnastjóri brothættra byggða á Þingeyri og annarra verkefna hjá Vestfjarðastofu og Ingibjörg Rósa Björnsdóttir, kynningarstjóri Háskólaseturs Vestfjarða og fyrrverandi háskólakennari í blaðamennsku.

Startup Westfjords fer fram á íslensku en einkatímar með ráðgjöfum verða í boði á íslensku og ensku. Innifalið í þátttökugjaldinu er hádegismatur og drykkir og einnig getur Blábankinn leiðbeint þátttakendum við að finna gistingu á Þingeyri.

DEILA