Meira af makríl í ár en tvö þau síðustu

Útbreiðsla og þéttleiki makríls, síldar og hrognkelsa (rauðir fylltir hringir) ásamt hitastigi í yfirborðslagi sjávar (10 m dýpi). Yfirborðstogstöðvar með engum afla af viðkomandi tegund er merktar með bláum punkt. Athugið að kvarði fyrir þéttleika er mismunandi milli tegunda.

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson lauk þátttöku í árlegum uppsjávarvistkerfisleiðangri í Norðurhöfum að sumarlagi þann 21. júlí.

Í þessum 18 daga leiðangri Árna kringum landið voru teknar 48 togstöðvar og sigldar um 3800 sjómílur eða 7 þúsund km. Þá voru gerðar sjómælingar og teknir átuháfar á öllum yfirborðstogstöðvum.

Rannsökuð var útbreiðsla og þéttleiki makríls, síldar og kolmunna í íslenskri landhelgi að undanskildum austurhluta hennar sem Færeyingar og Norðmenn rannsökuðu.

Bráðbirgðaniðurstöður sýna að magn og útbreiðsla makríls í íslenskri landhelgi er mun meira en undanfarin tvö sumur.

Makríll fannst meðfram suður- og vesturströnd landsins, bæði á landgrunninu og utan þess. Fyrir sunnan, fannst makríll í Íslandsdjúpi suður að 62 °N breiddargráðu en makríll hefur ekki fengist í þessum leiðangri svo sunnarlega síðan sumrið 2016.

DEILA