FLÆÐAREYRI

Í Flæðareyri stendur samkomuhús ungmennafélagsins  sem var í Grunnavíkurhreppi, byggt á fjórða áratug síðustu aldar.

Halldór B. Halldórsson á Ísafirði gaf Ungmennafélaginu Glað í Grunnavíkurhreppi lóð undir húsið með gjafabréfi dagsettu á Ísafirði 14. ágúst 1933, en hann var eigandi jarðarinnar Höfða. Segir hann í bréfinu að lóðin sé 2500 fermetrar á svo nefndri Flæðareyri og að þess utan hafi félagið frían fimm metra breiðan veg til sjávar frá lóðinni. Segir og að félagið beri „ábyrgð á spjöllum ef verða kunni utan lóðatakmarkanna gagnvart ábúendum jarðarinnar af félagsins völdum“. Að sögn gaf Halldór að auki tuttugu poka af sementi til byggingar samkomuhússins og hver bóndi í hreppnum gaf lamb til þess að standa undir efniskostnaði en sameiginlega unnu hreppsbúar að því að reisa húsið.

Á síðustu árum byggðar í hreppnum kom unga fólkið alstaðar að úr sveitinni í Flæðareyri tvisvar eða þrisvar á vetri en oftar á sumri til þess að skemmta sér, dansaði þar heillastundir, keypti heitan rabarbaragraut með rjóma og snæddi saman við langborð í eldhúsinu í kjallaranum. Hóf sín dagsverk heima á bæjunum að morgni ósofið. Í Flæðareyri halda burt fluttir Grunnvíkingar enn gleði á sumri á fjögurra ára fresti; liggja við í tjöldum, stíga þróttmikinn dans um nætur; kvika æskunnar vakir í augum og hreyfingum þegar rakin eru gömlu sporin í Flæðareyri.

Af vefsíðunni hornstrandir.is (Úr Grunnvíkingabók Guðrún Ása Grímsdóttir)

DEILA