Emil leggur skóna á hilluna eftir tvö hjartastopp

Fotbolti.net skýrir frá því að Emil Pálsson hafi lagt fótboltaskóna á hilluna en hann er 29 ára gamall.

Hann hefur ákveðið að ljúka ferli sínum eftir að hafa farið tvívegis í hjartastopp á sex mánaða kafla.

„Fótboltinn hefur alltaf verið mín stærsta ástríða í lífinu og ég er mjög stoltur af ferlinum sem ég skil eftir. Að hafa spilað sem atvinnumaður eru forréttindi og ég naut hverrar mínútu. Það er erfitt að yfirgefa íþróttina á þessu stigi ferilsins en heilsan á alltaf að vera í forgangi,“ skrifar Emil á Instagram.

Emil fór í hjartastopp þegar hann var að spila með Sogndal í Noregi á fyrsta degi nóvembermánaðar á síðasta ári og var endurlífgaður á vellinum. Hann setti stefnuna á að halda fótboltaferlinum áfram en fór svo aftur í hjartastopp á æfingu í maí.

Emil fæddist á Ísafirði og lék með BÍ/Bolungarvík áður en hann gekk í raðir FH þar sem hann varð þrívegis Íslandsmeistari og einu sinni bikarmeistari. Auk Sogndal lék hann með Sandefjord og Sarpsborg í Noregi.

Hann hefur leikið einn A-landsleik, vináttulandsleik gegn Sameinuðu arabísku furstadæmunum 2016.

DEILA