Umsvif í fiskeldi aukast

Samhliða auknum umsvifum í fiskeldi hér á landi á undanförnum árum hefur starfsmönnum fjölgað mikið. Að jafnaði störfuðu 620 manns beint við fiskeldi á fyrstu fjórum mánuðum ársins, en 540 á sama tímabili í fyrra. Það er fjölgun um 15%. 

Fiskeldi er ein af fáum atvinnugreinum sem er umfangsmeiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.

Yfir 80% af starfsfólki í fiskeldi býr á landsbyggðinni og yfir 80% af atvinnutekjum í greininni koma í hlut einstaklinga sem þar búa.

Áhrifin eru áþreifanlegust á Vestfjörðum enda má rekja um þriðjungs launafólks og atvinnutekna í fiskeldi til íbúa þar.

Vægi fiskeldis á vestfirskum vinnumarkaði er orðið mjög greinilegt. Um 5,3% launafólks á Vestfjörðum starfaði í fiskeldi á fyrstu 4 mánuðum ársins samanborið við 4,9% á sama tímabili í fyrra. Vægi í atvinnutekjum á svæðinu var 6,9% á fyrstu 4 mánuðum ársins samanborið við 6% á sama tímabili í fyrra.

Af þessu er jafnframt ljóst að atvinnutekjur í fiskeldi á Vestfjörðum eru að jafnaði hærri en atvinnutekjur í öðrum atvinnugreinum á svæðinu. Þó ber að halda til haga að þetta er óháð vinnutíma og öðrum þáttum sem hafa áhrif á laun.

DEILA