Siðleysi í verðlagningu á bensíni segir FÍB

Félag íslenskra bifreiðaeigenda segir eldsneytisverð í hæstu hæðum um þessar mundir.

Verðin tóku að hækka á heimsmarkaði þegar heljartök Covid-19 fóru að losna og innrás Rússa í Úkraínu hefur gert ástandið enn alvarlegra með tilheyrandi hækkun á olíumörkuðum. 

Olía á Brent hráolíumarkaðnum náði að sigla yfir 120 Bandaríkjadali í júní en hefur frá 15. júní verið að síga niður og í gær náði verðið að fara undir 100 Bandaríkjadali á tunnu.

Bensín- og dísilverð hér heima var að mestu óbreytt frá 14. júní þar til í gær þegar verðið á bensíni lækkaði um 2,5 krónur á lítra, fór t.d. hjá N1 úr 352 krónum í 349,5 krónur á lítra. Verð á dísillítra lækkaði hjá N1 úr 346 krónum í 343,5 krónur á lítra.

Úttekt FÍB á eldsneytismarkaðnum sýnir að íslensku olíufélögin eru að stórauka álagningu sína fyrstu vikuna í júlí miðað við álagningu fyrri mánaða ársins.  Um þessar mundir er lag til að lækka bensínverðið um a.m.k. 20 krónur á lítra en halda samt álagningunni yfir meðaltali ársins.

FÍB gerir alvarlegar athugasemdir við þessa verðstefnu olíufélaganna gagnvart neytendum og hvetur þau til að lækka verðin hjá sér strax. 

Það getur verið freistandi á fákeppnismarkaði að lækka ekki eldsneytisverð til að auka hagnað þegar mikil eftirspurn er á markaðnum enda margir á faraldsfæti í sumarfríi.

Svona verðlagning er siðlaus segir í tilkymnningu frá FÍB.

DEILA