Safnadagur á Hnjóti

Hnjótur í Örlygshöfn.

Safnadagurinn á Hnjóti verður haldinn hátíðlegur sunnudaginn 10. júlí nk.
Samkvæmt venju hefst dagurinn með messu í Sauðlauksdal kl. 14. Að henni lokinni verður boðið uppá kaffihlaðborð á Minjasafninu að Hnjóti.

Á safninu verður sýning á myndefni frá Kvikmyndasafni Íslands sem sýnt var á Skjáldborgarhátíðinni nú í byrjun júní sl.
Kvikmyndasafn Íslands hefur tekið saman myndefni frá fyrri hluta og um miðja síðustu öld sem tengist aðallega Patreksfirði en einnig Vestfjörðum.

Minjasafn Egils Ólafssonar að Hnjóti Örlygshöfn varðveitir einstætt safn gamalla muna frá sunnanverðum Vestfjörðum sem veita innsýn í sögu sjósóknar, landbúnaðar og daglegs lífs. Þar er einnig að finna sýningu um björgunarafrekið við Látrabjarg árið 1947 og hattinn hans Gísla á Uppsölum.

Stofnandi safnsins Egill Ólafsson (1925-1999) var fæddur og uppalinn á Hnjóti og byrjaði ungur að safna munum. Með áhuga sínum og framsýni varð til þetta merka minjasafn sem Egill og kona hans Ragnheiður Magnúsdóttir byggðu upp og gáfu sveitafélögunum í Vestur-Barðastrandarsýslu.

DEILA