Íbúafundur í verkefninu Áfram Árneshreppur

Fimmtudaginn 23. júní s.l. var haldinn íbúafundur í Félagsheimilinu í Árnesi í verkefninu Áfram Árneshreppur.

Verkefnið er hluti af verkefnum Byggðastofnunar og samstarfsaðila undir heitinu Brothættar byggðir. Að þessu sinni tók Árneshreppur á móti gestum með norðaustan kalsaveðri en eins og ávallt var fróðlegt og spennandi að sækja byggðarlagið heim.

Verkefnið Áfram Árneshreppur er nú á síðasta ári hvað aðkomu Byggðastofnunar varðar og því beindist umræðan einkum að því hvernig nýta mætti sem best þann tíma sem er til ráðstöfunar og hvernig halda mætti áfram starfi í þágu samfélagsins í Árneshreppi að þessu ári liðnu.

Á fundinum kom fram að stjórnvöld og aðrir hagsmunaaðilar hafa lagst myndarlega á árar með samfélaginu í Árneshreppi og má þar nefna að unnið er að lagningu þriggja fasa rafstrengs um byggðarlagið og samfara því er unnið að lagningu ljósleiðara.

Nýlega fékkst styrkur úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að bæta aðstöðu við höfnina í Norðurfirði og styrkir hafa fengist til að kanna hagkvæmni þess að koma á hitaveitu í byggðina við Norðurfjörð. Þá tók Vegagerðin ákvörðun um að halda uppi þjónustu á veginum norður í Árneshrepp allan síðastliðinn vetur, sem er mikil breyting til batnaðar frá svokallaðri G-reglu sem stuðst hefur verið við undanfarin ár að mati fundarmanna sem tjáðu sig um málið.

Verkefnið Áfram Árneshreppur snýst þó ekki síst um frumkvæði og dugnað íbúa og annarra velunnara Árneshrepps í verkefnum í þágu styrkari  byggðar. Í tilefni þess sótti verkefnisstjórn nokkra styrkþega heim fyrir fundinn og kynnti sér framvindu og árangur verkefna. Meðal annars var komið við í verksmiðjunni í Djúpavík, hjá Urðartindi í Norðurfirði, Verzlunarfjelaginu í Norðurfirði og í Krossneslaug. Vegna veðurs var ekki unnt að skoða verkefni Íslenska Alpaklúbbsins um uppsetningu klifurleiða við Norðurfjörð en af lokaskýrslu verkefnisins má sjá að Árneshreppur getur nú státað af næst stærsta klettaklifursvæði á landinu á eftir Hnappavöllum í Öræfum.

Fundurinn var allvel sóttur með tilliti til smæðar samfélagsins og einkum var ánægjulegt að sjá hversu margir „farfuglar“ mættu að þessu sinni. Hugur var í fundarmönnum að nýta þau tækifæri, byggðarlaginu til heilla, sem bættir innviðir og vegaþjónusta munu bjóða upp á á næstu árum.

Hér má sjá myndir frá íbúafundinum og myndir úr Árneshreppi teknar af þessu tilefni.

Myndir: Kristján Þ. Halldórsson

DEILA