ALLT Í BLÓMA

Út er komin bókin Allt í blóma – pottablómarækt við íslenskar aðstæður eftir Hafstein Hafliðason.

Hafsteinn er margverðlaunaður fyrir sitt ævistarf en blómarækt, garðyrkja og grasafræði hafa alla tíð verið hans ær og kýr.

Í þessari bók greinir hann frá öllu því sem huga ber að í sambýli við pottablómin, svo þau fái að vaxa og dafna. Hann hefur kengi safnað saman upplýsingum um allar helstu plöntutegundir landsins og gefur hér jafnframt góð ráð um ræktun og umhirðu ólíkra tegunda.

Hvernig ölum við upp ólíkar plöntur? – Hversu mikið á að vökva? – Hvaða birta hentar plöntunni og hvar ætti hún að standa? – Hvaða mold er best að nota og hvernig er með næringuna? – Hvernig er ráðlagt að standa að umpottun og fjölgun? – Hvað heitir blessuð plantan og hvaðan kemur hún?

Öllum þessum spurningum og fjölda annarra er hér svarað og því lýst hvernig við ræktum falleg og heilbrigð stofublóm á heimilum okkar allan ársins hring. Hafsteinn hefur í áratugi miðlað af þekkingu  sinni á blómarækt og garðyrkju með pistlaskrifum og þáttagerð fyrir útvarp og sjónvarp. Þá heldur hann úti hinum geysifjölmenna hópi á Facebook „Stofublóm inniblóm pottablóm“ þar sem á fjórða tug þúsunda fylgjenda njóta ráða hans og þekkingar.

Blómaunnendur geta nú fagnað því að hér er loksins komin hin eina sanna biblía áhugafólks um pottaplöntur – og það frá okkar mesta ástríðumanni í blómarækt.

DEILA