Þrjú verkefni á Vestfjörðum hljóta styrk úr Lóu

Úthlutanir úr Lóu – nýsköpunarstyrkjum fyrir landsbyggðina hafa nú verið tilkynntar og hljóta 21 verkefni styrk í ár. Verkefnin eru fjölbreytt og eru m.a. á sviði nýsköpunar í matvælavinnslu, uppbyggingu í vistkerfi nýsköpunar og STEAM greina og rannsókna á sviði sjávarfallavirkjana. Þá sýndu umsóknir um styrkina að um land allt er mikill áhugi hvað varðar nýtingu og sköpun verðmæta úr þörungum.

Alls bárust 100 umsóknir um styrki í ár og samtals var tæpu­­­m 100 m.kr. úthlutað til þeirra verkefna sem matshópur um veitingu Lóu nýsköpunarstyrkja taldi skara fram úr.

Hlutverk Lóu er að styðja við nýsköpun, eflingu atvinnulífs og verðmætasköpun sem byggir á hugviti, þekkingu og nýrri færni, á forsendum svæða á landsbyggðinni. Styrkirnir veita aukinn slagkraft inn í nýsköpunarverkefni og stuðla að auknu samstarfi um land allt.

Lóa – nýsköpunarstyrkir fyrir landsbyggðina fyrir árið 2022 voru auglýstir í vor og var umsóknarfrestur til 11. maí sl. Matshópur fór yfir allar umsóknir og gerði í kjölfarið tillögur til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um veitingu styrkja.

Þau verkefni em hljóta styrki á Vestfjörðum eru Sjótækni sem fær 12,5 milljónir til að rannsaka straumrastir og sjávarföll, Blámi sem fær 4,2 milljónir og Þörungamiðstöð Íslands á Reykhólum sem fær 8.1 milljón.

DEILA