Vel vandað til vegagerðar um Teigsskóg

Teigsskógur. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Náttúrustofa Vestfjarða hefur lengi unnið í rannsóknum í tengslum við umhverfismat vegna fyrirhugaðra vegaframkvæmda frá Bjarkalundi að Skálanesi, svokallaða Teigsskógarleið. Í tengslum við framkvæmdarleyfi Reykhólahrepps vegna veglagningarnar voru gerðir ýmsir skilmálar. Einn af þeim skilmálum var að halda úti vöktun á ákveðnum þáttum í tengslum við áhrif vegagerðarinnar á strauma og dýralíf. Náttúrustofan sá um að taka saman áætlun um þá vöktun.

 Í tengslum við vegagerðina um Teigsskóg hefur Hulda Birna Albertsdóttir hjá Náttúrustofu Vestfjarða í samstarfi við Steinunni Garðarsdóttir unnið leiðbeiningar um hvernig standa eigi að endurheimt staðargróðurs vegna vegaframkvæmda frá þverun Þorskafjarðar að Hallsteinsnesi.

Í framhaldi að útboði á framkvæmdinni héldu þær námskeið fyrir starfsfólk Borgarverks í samstarfi við Vegagerðina og Landbúnaðarháskóla Íslands en Borgarverk hefur skrifað undir samning um framkvæmd verksins.

Á námskeiðinu fór Páll Valdimar Kolka verkefnastjóri hjá Vegagerðinni yfir umhverfisstefnu Vegagerðarinnar og áherslur við endurheimt staðargróðurs. Steinunn Garðarsdóttir fór yfir það hvers vegna staðargróður og hvers ber að gæta við endurheimt í tengslum við vegagerð. Hulda Birna Albertsdóttir fór yfir forsendur verklýsinga fyrir endurheimt staðargróðurs í vegagerð um Teigsskóg. Einnig ræddu G.Reynir Georgsson um verklýsingar og Guðmundur Ingi Guðmundsson um tæknileg atriði.

DEILA