Vakti athygli á frestunum en er á leið úr bæjarfélaginu

Eftir að færsla Pálínu Jóhannsdóttur á facebook sem fór á flug í fjölmiðlum fyrir nokkrum dögum er ljóst að margar íþróttagreinar hér fyrir vestan og víða um land hafa sömu sögu að segja þegar kemur að ítrekuðum frestunum á kappleikjum með stuttum fyrirvara.

Aðspurð um hver forsagan af færslunni sé þá segir hún að í nokkur ár hafi hún eingöngu verið að furða sig á þessu ásamt öðrum foreldrum inni á lokuðum facebook hópum þeirra flokka sem hafa verið að lenda í frestunum. 

“Ég hafði þó vakið athygli á þessu á mínum vegg á facebook undanfarin ár. Fyrstu árin var ég kurteis og nafngreindi aldrei liðin af því mér þykir vænt um íþróttahreyfinguna og ég var ekki að þessu til að mæta með heygaffla og hatur. Markmiðið var og er ennþá að vekja máls á þessum aðstæðum iðkenda okkar hér í hinum ýmsu greinum. Því þau eiga betra skilið krakkarnir.” segir Pálína.

Spurð um sýnishorn af þessum færslum nefndi Pálína þessar færslur frá síðasta ári:

 “28.júní og dæturnar sem spila með 5.fl Vestra búnar með 1 leik í Íslandsmóti. Er það eðlilegt að lið fresti og fresti að koma í leiki? Sonurinn sem á 4-5 heimaleiki um helgar í júlí er búinn að spila 1 heimaleik. Eigum við liðin úti á landi sem skipuleggjum ferðalög og fjölskyldufrí út frá leikjaplani að vera alltaf til taks þegar liðin hringja samdægurs og fresta.

og fáeinum dögum síðar þann 5 júlí:

Við erum búin að vera veltast með hvort við ættum að skella okkur í útilegu en vorum á báðum áttum því Kristinn átti að spila leik á morgun. Sem hefur nú verið frestað í dag vegna þess að enn og aftur vita lið ekki hvernig á að ferðast út á land … þeir í 2.fl hafa farið í amk þrjár ferðir og spilað stundum tvo leiki í hverri ferð. Þetta átti að vera annar heimaleikurinn þeirra. Þetta er líklega ekki síðasti frestunarstatus minn, ég þarf kannski að fara afvegaleiða börnin mín úr íþróttum þetta er að gera mig sturlaða

Í vetur var henni orðið ofboðið, en börnin æfa einnig körfubolta með Vestra.  Það var ljóst að þetta myndi ekki breytast heldur væri að versna.

 “Ég ákvað að nafngreina hvert einasta lið sem myndi fresta leik með stuttum fyrirvara með facebook færslum. Taldi ég óvíst að það myndi skila árangri en kannski að það myndi hreyfa við fólki.  Eins fékk Þórir Guðmundsson formaður ungri flokka körfuknattleiksdeildar Vestra smá fjölmiðlaumfjöllun þegar 8.fl stúlkna hjá Vestra fékk endalausar afboðanir á fjölliðamót sem átti að halda í Bolungarvík þar til ekkert lið sá sér fært að mæta. Þetta var orðið of alvarlegt mál og þetta var farið að draga mátt úr okkur fullorðna fólkinu, hvað þá iðkendum.”

Í vor byrjaði svo ballið aftur í fótboltanum og þá komu þessar færslur. “7.mai 2022 Knattspyrnusumarið byrjað … á morgun átti að vera leikur hjá 5.fl kv Vestra gegn Aftureldingu. Afturelding nær ekki í lið til að koma vestur. Þetta er ekki fyrsti status sem ég skrifa um svona og líklega ekki síðasti. En ég mun gera  name shame status á öll félög sem gera þetta.

Takk fyrir ekkert Afturelding að hringja á laugardegi.

Takk fyrir að taka ekki tillit til þess að við fjölskyldan og aðrar fjölskyldur hér ótrúlegt en satt höfum stundum aðra hluti að gera, reynum að passa upp á að vera hér þegar það eru leikir. Takk fyrir að dreeeepa eftirvæntingu og tilhlökkun fyrir heimaleik.”

Pálína hefur töluvert starfað sem þjálfari og þá fékk hún m.a hringingar á borð við: “ sæl, ég er að hringja fyrir ….. (lið á höfuðborgarsvæðinu). Við eigum leik hjá ykkur í byrjun júní og vorum að velta því fyrir okkur hvort að við gætum fengið hann færðan?” Pálína spurði viðkomandi hvenær hann vildi koma en svarið var þá: “ jahh við vorum að spá af því þið komið hvort eð er suður í einhverja leiki hvort við getum ekki tekið bara leikinn hér?”

Hún sagðist hafa bitið fast í tunguna og sagt loks: “ nei því miður, stelpurnar eiga skilið að fá sinn heimaleik?” Viðmælandinn sagðist þá gruna að þetta yrði svarið en þær yrðu þá að gefa leikinn því þau kæmust ekki vestur.

Sumarið 2019 fékk Pálína símtal þar sem þjálfari liðs á Suðurnesjum sagðist ekki geta komið í leik sem var þá skipulagður þrem dögum síðar. Ástæðan var: “ við þurfum að panta stóran bíl og allt! Svo eru allir bílar uppteknir hjá bílaleigunum svo við komumst bara ekki.” Pálína sagði viðmælandanum að hún áttaði sig á því að það þyrfti stóran bíl og með stóískri ró svaraði hún viðkomandi: “tengiliðir okkar panta alla bíla í upphafi sumars og ef eitthvað breytist eða klikkar þá hættum við ekki fyrr en við náum nógu mörgum bílum til að keyra.” Sá leikur var spilaður seinna um sumarið fyrir vestan en þá voru nokkrar af okkar stelpum í löngu plönuðu fríi með fjölskyldunni. 

Allir sem koma að íþróttastarfi hér fyrir vestan vita að það kemur ýmislegt upp á og auðvitað kemur fyrir að við þurfum líka að fresta leikjum segir hún. Staðan er orðin ansi strembin í eldri flokkunum þar sem hver einasti fótur þarf helst að vera í lagi allt sumarið.

Eins er Pálína ekki sannfærð um að háar sektir séu hið eina sanna í þessari lausn sem verið sé að kalla eftir: “Það sem þarf að breytast er hugarfar forráðamanna liðanna og foreldra á höfuðborgarsvæðinu aðallega. Það á að vera undantekning að þurfa að fresta það á ekki að vera þannig að við séum að gera ráð fyrir því.”

Knattspyrnuiðkendur okkar stórir sem smáir hafa fengið langa puttann frá sveitarfélaginu í alltof mörg ár. Knattspyrnan er bara ekki lengur þannig að við séum að hittast á mölinni eða á þúfunum inni í Tungu eins og var þegar ég var sjálf á unglingsaldri. Þá vorum við tuttugu árum eftir á og við erum það ennþá. Það er tvítugsafmæli hjá gervigrasvellinum í sumar og það á ekkert að gerast í ár. Hann er stórhættulegur og meiðslahættan gríðarleg. Ennþá er verið eyða tíma í að skipuleggja svæðið. Börnin hjá Vestra hafa ekki tíma í þetta aðgerðarleysi. Þau eiga betra skilið. Það er unnið metnaðarfullt starf hjá íþróttafélögum okkar hér í öllum greinum og forráðamenn þeirra þá sérstaklega knattspyrnunnar eru að berjast á of mörgum vígstöðvum í einu. Það er verið að berjast við kostnað, aðstöðuleysi, brottfall eldri iðkenda og rugl tími sem fer í frestanir og skipulagsvinnu fyrir ferðalög eða jafnvel heimaleiki. 

Þegar spurt er hvað sé fram undan í baráttunni fyrir bættri aðstöðu segir hún: “Það eru svo sem aðrir í því en við erum á leiðinni úr bæjarfélaginu í sumar. Ég mun samt berjast fyrir iðkendur Vestra fram á síðasta dag. Það tekur enginn hafið eða fjöllin úr hjörtum okkar fjölskyldunnar þó að við verðum búsett á flatlendinu.” Hún segir þetta ekki vera neina óskastöðu því fjölskyldan hefur verið á Vestfjörðum frá stofnun ef svo má segja, fyrir utan tvö fyrstu árin í Reykjavík.

Við bjuggum í 15 ár í Bolungarvík og síðustu tvö ár hafa þau búið á Ísafirði. “Það er allt frábært hérna nema aðstaðan fyrir knattspyrnu er bagaleg og börnin hafa ekki tíma lengur til að bíða. Ég er nú ekki að ala upp neina afreksmenn en þau vilja bara æfa og spila fótbolta við eðlilegar aðstæður og við verðum að fara.”

Þá er hún spurð hvernig tilfinning það er að fara með börnin frá því sem þau þekkja best? “Það eru blendnar tilfinningar að fara með börnin í óvissuferð frá vinum, góðum þjálfurum, góðum kennurum og ættingjum. Sjálf erum við hjónin búin að koma okkur vel fyrir, maðurinn minn Jón Steinar Guðmundsson með verktakafyrirtæki á svæðinu og ég er grunnskólakennari. Það er ákveðinn framtíðardraumur að molna í höndunum á okkur og þetta tekur á. Við festum kaup á húsnæði ömmu minnar og afa uppi á Hjallavegi sumarið 2020 og þarna ætluðum við okkur að vera um aldur og ævi.

Þetta er sárt en við förum þakklát fyrir góða þjálfara og annað gott fólk. Börnin hafa verið heppin og það er mikill mannauður á svæðinu þegar kemur að uppeldis menntuðu fólki. Þetta er fólk sem fer langt út fyrir starfssvið sitt til að láta hlutina ganga upp og fórnarkostnaðurinn í þessum störfum er gríðarlegur.”

Það eru fleiri iðkendur annaðhvort farnir einir eða fjölskyldur þeirra með út af aðstöðunni og ef ekkert breytist þá verða fjölskyldurnar fleiri.

Spurð að því hvort hún og hennar fólk hafi ekki fórnað ýmsu fyrir fótboltann svarar hún: “Við þekkjum ekkert annað, ég er alin upp við að fótbolti gengur fyrir fríum, veislum og öllu mögulegu og maðurinn minn er þannig líka svo þetta ætti ekki að koma á óvart. Auðvitað eru vinir okkar og fólk tengt okkur ekkert hoppandi kát en það skilja þetta flestir og styðja okkur. Við Jón Steinar komum vonandi aftur sem fyrst en ef í hart fer þá tökum við a.m.k. göngugrindar röltið á Hlíf eða í Hvíta húsinu í Bolungarvík.” segir Pálína að lokum.

DEILA