Spói (Numenius phaeopus)

Spói er stór vaðfugl, háfættur og rennilegur. Hann er grábrúnn með ljósum fjaðrajöðrum að ofan, á bringu og niður á kvið en annars ljós á kviði og neðan á vængjum, með dökkbrúnan koll og augnrák en ljósa brúnarák og kverk. Hvítur gumpur og neðri hluti baks eru áberandi á flugi. Stél er þverrákótt og vængendar dökkir. Ungfugl er svipaður en goggur styttri og beinni.

Langur, grábrúnn goggurinn er boginn niður á við og einkennir fuglinn mjög. Langir fæturnir eru blágráir og augun eru dökk með ljósum augnhring.

Á flugi þekkjast spóar á hröðum vængjatökum. Þeir fljúga oft um í hópum síðla sumars, áður en þeir yfirgefa landið. Spóinn er annars fremur ófélagslyndur. Hann tyllir sér oft á háan stað, t.d. fuglaþúfu, og vellir. Söngur spóans, vellið, er eitt af einkennishljóðum íslenska sumarsins. Að auki gefur hann frá sér ýmis flauthljóð.

Spóinn er farfugl. Hann er algengur á láglendi um land allt en strjáll á hálendinu. Vetrarstöðvarnar eru í Vestur-Afríku sunnan Sahara og lítils háttar á Spáni og Portúgal. Nýlegar rannsóknir sýna að spóarnir geta flogið í einum rykk til Vestur-Afríku. Um 40% af spóum heimsins verpa á Íslandi. Við berum því mikla ábyrgð á spóastofninum. Verpur annars víða umhverfis Norður-Íshafið.

Af vefsíðunni nmsi.is

DEILA