Sauðfjársetrið 20 ára

Sunnudaginn 26. júní verður haldið upp á 20 ára afmæli Sauðfjárseturs á Ströndum með afmælishátíð.

Þann dag verður opnuð formlega ný sýning sem sett hefur verið upp á listasviðinu í Sævangi og hefur yfirskriftina Hvítabirnir koma í heimsókn. 

Á sýningunni er fjallað um hvítabjarnakomur til Vestfjarða og á Strandir sérstaklega, en allmörg dýr hafa rekið á fjörur Vestfirðinga eða gengið á land í gegnum tíðina.

Samkvæmt þeim heimildum sem varðveist hafa eru nefnd um 140 dýr. Bjarndýrakomur eru alltaf ævintýralegir viðburðir og þeim fylgja magnaðar sögur. Í þeim munar yfirleitt sáralitlu að illa fari.

Þetta á einnig við um ísbjarnakomur á Strandir og eftirminnilegar sögur eru t.d. sagðar um gamalt bjarndýr sem fellt var í Drangavík 1932, svokallaðan rauðkinnung, en slíkar skepnur eru sagðar allra ísbjarna grimmastir og hættulegastir.

Sýningin er samvinnuverkefni Byggðasafns Vestfjarða, Minjasafns Egils Ólafssonar á Hnjóti og Sauðfjársetursins. Með þeim í liði er Rannsóknasetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofa.

Á sýningunni eru bæði bjarndýrafeldur og uppstoppaður hvítabjörn, hvort tveggja í eigu Byggðasafns Vestfjarða.

Kaffiveituingar á staðnum.

DEILA