Hlaupaferð á Straumnesfjall

Laugardaginn 2. júlí verður efnt til hlaupaferðar frá Látrum í Aðalvík upp á Straumnesfjall og til Hesteyrar. Vegalengdin er um 33 km svo að hlauparar þurfa að vera í góðu formi.  Aldurstakmark er 18 ára.

Lagt er af stað kl. 09:00 með bátsferð í Látra í Aðalvík. Bátsferðin tekur rúma klukkustund og hlaupurum er skutlað í land á zodiac tuðru.

Þegar hópurinn hefur stillt sig saman, hefst ferðin á því að hlaupa upp Straumnesfjallið. Hækkunin er um 460m.

Uppi á fjallinu eru stríðsminjar – bandaríski herinn reisti þar ratsjárstöð í Kaldastríðinu, og standa mörg þessara húsa enn uppi. Við fáum vonandi frábært útsýni af toppi fjallsins, útsýni yfir Rekavík bak Látur, Öldudalinn og Fljótavík. Farin er sama leið aftur niður af fjallinu og er haldið niður að Látrum, þar sem leiðin liggur yfir melana í átt að Stakkadalsvatni.

Gengið/skokkað upp Hesteyrarskarðið á milli tveggja fjalla, Búrfells og Kagrafells og niður Hesteyrardalinn, þar sem við sjáum svo glitta í læknisbústaðinn. Þar bíður vertinn með heitt kaffi á könnunni aðrar veitingar.

Eftir góða slökun á Hesteyri, er siglt til baka til Ísafjarðar. Frekari upplýsingar eru hjá Vesturferðum en siglt er með Sjóferðum yfir Djúpið.

DEILA