Bátadagar á Breiðafirði 9 júlí

Félag áhugamanna um Bátasafn Breiðafjarðar á Reykhólum, gengst fyrir bátahátíð á Breiðafirði í fimmtánda sinn 9 júlí nk.

Núna verður farið til Hvalláturs þar sem rekin var afkastamikil bátasmíðastöð fram á sjöunda áratug síðustu aldar. Þar hefur teinæringurinn Egill verið geymdur allt frá árinu 1940 er hætt var að nota hann og honum lagt.

Fróðleik um Egil og fleiri báta er að finna í munaskrá félagsins sem geymd er hér: http://batasmidi.is/files/

Dagskrá:

Föstudagur 8. júlí.  Safnast saman.

Ráðgert er að þátttakendur safnast saman á Reykhólum föstudaginn 8 júlí. Flóð er um kl. 14 og þá er gott að setja bátana niður í höfninni fyrir þá sem koma með bátana landleiðina. Einnig er hægt að sjósetja báta í höfninni við Stað á Reykjanesi.

Laugardagur 9. júlí.

Á laugardagsmorgun verður haldið frá Reykhólum um kl. 9 og áformað er að sigla um s.k. Staðareyjar. Við Stað koma þeir, sem þaðan fara, til móts við þátttakendur (um kl. 10)  og síðan er siglt áleiðis um Skáleyjalönd og til Hvalláturs. Staðarhaldarar í Hvallátrum munu kynna þátttakendum það starf sem þar fer fram en þar er stunduð æðarrækt og dúntekja. Einnig mun Egill verða skoðaður og saga hans sögð. Ráðgert er síðan að koma til baka seinni partinn.


Að sjálfsögðu ráða aðstæður, sjávarföll og veður, mestu um hvernig siglingin verður og áætlunin getur því breyst ef aðstæður krefjast. Siglingin verður undir stjórn manna sem þekkja vel til aðstæðna við Breiðafjörð.

Formaður hvers báts er ábyrgur fyrir því að nauðsynlegur öryggisbúnaður sé fyrir hendi um borð. Vinsamleg tilmæli eru að þátttakendur verði með bjargbelti og að sem flestir bátar séu búnir björgunarbátum.

Allirt bátaeigendur eru velkomnir með báta sína og við viljum hvetja sem flesta til að nýta sér þetta tækifæri til siglingar um þetta fallega umhverfi.

DEILA