Styrkja á lögregluembætti á landsbyggðinni

Dómsmálaráðherra hefur falið sjö lögregluembættum á landsbyggðinni að efla starfslið sitt og auglýsa stöður lögreglumanna.

Lögregluumdæmin sem um ræðir eru Vesturland, Vestfirðir, Norðurland vestra, Norðurland eystra, Austurland, Suðurland og Suðurnes.

Markmiðið er að styrkja embætti lögreglu á landsbyggðinni þannig að hægt verði að efla útkallsviðbragð lögreglu og veita sambærilegri þjónustu um allt land.

Eru þessi áform hluti af stærri endurskoðun á starfsemi lögreglunnar í landinu þar sem stefnt er að aukinni skilvirkni, betri nýtingu mannafla og þekkingar og að lögregla sinni fyrst og fremst sínu meginhlutverki.

Með fjölgun í lögregluliði landsbyggðarembættanna verður mögulegt að færa þangað tiltekin verkefni sem annast mætti á landsvísu og með auknu samstarfi og samvinnu allra lögregluembætta verður hægt að stytta rannsóknartíma.

Embætti lögreglustjóra á Suðurnesjum og Norðurlandi eystra verða til dæmis efld til að sinna símaafritunum. Stafræn gögn eru stór hluti af rannsóknum sakamála, ekki síst kynferðisbrota, og hafa þessi embætti þegar fjárfest í tækjabúnaði og þjálfun starfsmanna til þess að sinna verkefninu. Ráðgert er að upplýsingar um frekari tilfærslu verkefna til annarra embætta liggi fyrir á næstu vikum.

DEILA