Sjávarútvegur vegur þyngst á Vestfjörðum

Af einstaka landshlutum vegur sjávarútvegur þyngst á Vestfjörðum. Þar hafa atvinnutekjur einstaklinga af veiðum og vinnslu staðið undir um fjórðungi atvinnutekna á svæðinu undanfarin ár. Hlutfallslega vegur hann minnst á höfuðborgarsvæðinu, eða innan við 2%.

Áhugavert er að sjá að Suðurnes eru eini landshlutinn þar sem vægi atvinnutekna af vinnslu er umfram vægi veiða.  Aukning sem orðið hefur á ferskfiskvinnslu hefur aukið enn á mikilvægi samgangna og nálægð við flutningsleiðir. Staðsetning Keflavíkurflugvallar hefur því gert Suðurnes að fýsilegum kosti fyrir botnfiskvinnslu.

Áhrif sjávarútvegs á einstaka svæðum eru þó öllu meiri en beint umfang hans gefur til kynna.

Ástæðan er sú að sjávarútvegur er grunnstoð í mörgum byggðarlögum víða um land og reyndar einn helsti grunnatvinnuvegur þjóðarinnar. Fjöldi fyrirtækja reiðir sig á starfsemi sjávarútvegs og er umfang hans því öllu meira en tölurnar á myndinni hér fyrir neðan gefa til kynna. Þar að auki hefur mikill vöxtur í nýsköpun og tækni í sjávarútvegi á undanförnum árum fjölgað atvinnutækifærum fyrir sérmenntað fólk á landsbyggðinni.

Mörg nýsköpunarfyrirtæki eru háð staðsetningu sjávarútvegsfyrirtækja eins og þau sem vinna úr ýmsu fersku hráefni sem fellur til frá sjávarútvegi. Má þar til dæmis nefna fiskroð, rækjuskel og annað hráefni sem áður var hent. 

DEILA