Nýsköpunardagur hins opinbera haldinn á morgun

Hvað er hægt að gera til að efla og styðja græna nýsköpun? Á morgun, þriðjudaginn 17. maí verður nýsköpunardagur hins opinbera haldinn þar sem fjöldi opinberra aðila kemur saman til að ræða nýskapandi og grænar lausnir við ýmsum áskorunum opinbers rekstrar.

Fjölbreytt erindi eru á  dagskrá nýsköpunardagsin sem snúa jafnt að nýjum tækifærum í nýsköpun, sem og reynslusögum af vel heppnuðum verkefnum. M.a. verður rætt um græn áhrif stafrænnar umbreytingar hjá hinu opinbera, um óstaðbundin störf, fjarlækningar, jarðvarmatengda nýsköpun og margt fleira.

Í tengslum við daginn stendur Stafrænt Ísland, eining innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem starfar þvert á ráðuneyti og stofnanir, fyrir svokallaðri Goy Jam vinnustofu. Þar gefst kostur á að taka þátt í hugarflugi um hvar megi bæta opinbera þjónustu með stafrænum lausnum.

Nýsköpunardagurinn er fer fram í Grósku á milli klukkan 9:00 og 15:30. Einnig verður hægt að skrá sig til þess að fylgjast með í streymi.

Að deginum standa Ríkiskaup, fjármála- og efnahagsráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og umhverfis- og orkumálaráðuneytið.

DEILA