Mikill verðmunur í fiskbúðum – Fiskbúð Sjávarfangs á Ísafirði næst oftast með lægsta verðið

Samkvæmt verðkönnun Alþýðusambandsins sem framkvæmd var miðvikudaginn 4. maí er mikill munur á verði í fiskbúðum landsins.

Algengast var að 20-40% munur væri á kílóverði af fiski í könnuninni. Í 13 tilfellum af 27 var 600-800 kr. munur á hæsta og lægsta kílóverði og í jafn mörgum tilfellum nam verðmunurinn 900-1.200 krónum.

Sem dæmi um mikinn verðmun má nefna 58% mun á hæsta og lægsta kílóverði af þorskflökum, 107% mun á kílóverði af rauðsprettuflökum, 65% mun á kílóverði af fiskrétti með löngu og 52% mun á kílóverði af plokkfiski.

Litla fiskbúðin Helluhrauni var oftast með lægsta verðið í könnuninni, í 18 tilfellum. Næst oftast var Fiskbúð Sjávarfangs á Ísafirði með lægsta verðið, í 4 tilfellum. Hafið og Fiskbúð Suðurlands voru oftast með hæsta verðið, í 10 tilfellum hvor um sig.

Verðtökufólki verðlagseftirlitsins var meinað að taka niður verð hjá eftirfarandi fyrirtækjum: Fiskbúðinni Hafberg, Fiskbúð Fúsa, Fiskbúðinni Vegamót, Fylgifiskum Nýbýlavegi og Melabúðinni. Að neita þátttöku í verðkönnun samræmist ekki sjálfsögðum rétti neytenda að fá skýrar og skilmerkilegar upplýsingar um verð vöru og þjónustu á sölustað. Framganga sem þessi vekur upp spurningar um af hverju fyrirtæki telji hagsmunum sínum betur borgið með því upplýsa neytendur ekki um verð.

Nánar er hægt að fræðast um verðkönnunina á heimasíðu ASÍ.

DEILA