Hafró með nýja skýrslu um stofnmælingu botnfiska á Íslandsmiðum

Í skýrslunni kemur fram að stofnvísitala þorsks hækkaði samfellt árin 2007-2017, fyrst og fremst vegna aukins magns af stórum þorski. Eftir lækkun árin 2018-2020 hefur vísitalan hækkað aftur. Þó svo að vísitala þorsks hafi aukist lítillega frá árinu 2020 er hún mun lægri en hún var á árunum 2015-2017.

Fyrsta mæling á 2021 árgangi þorsks bendir til að hann sé undir meðalstærð árganga frá 1984. Árgangur 2020 er nálægt meðaltali af fjölda 2 ára, árgangur 2019 mælist yfir meðaltali 3 ára þorsks og árgangar 2018 og 2017 eru nálægt meðaltali 4 og 5 ára.

Meðalþyngd 2, 3 og 5 ára þorsks mældist undir meðaltali áranna 1985-2022, en meðalþyngd annarra aldurshópa var um eða yfir meðaltali. Undanfarinn áratug hefur meðalþyngd 5 ára og yngri oftast verið undir meðaltali tímabilsins, en meðalþyngd eldri þorsks verið yfir meðaltali. Loðna var helsta fæða þorsks, ýsu og ufsa eins og ávallt á þessum árstíma. Talsvert var af loðnu í mögum flestra lengdarflokka þessara tegunda á grunnslóð allt í kringum landið. Þorskur er yfirleitt innan við 1% af fæðu 40-110 cm þorsks í marsmánuði (í ár 0,9%).

Vísitala ýsu hefur farið hækkandi frá árinu 2016. Árgangar ýsu frá 2017, 2019 og 2020 mælast yfir meðaltali en yngsti árgangurinn frá 2021 er undir meðaltali. Árgangur ýsu frá 2018 er lélegur.

Meðalþyngd ýsu eftir aldri hefur verið há undanfarin ár og mældist nú yfir meðaltali hjá öllum aldurshópum nema 2 og 3 ára. Loðna var helsta fæða ýsu eins og ávallt á þessum árstíma. Talsvert var af loðnu í mögum flestra lengdarflokka á grunnslóð allt í kringum landið.

Aðrar tegundir

Vísitala ufsa hefur lækkað frá 2018 og er nú nálægt meðaltali rannsóknatímans. Vísitölur gullkarfa, löngu, keilu, steinbíts og litla karfa eru háar miðað við síðustu fjóra áratugi. Vísitala skötusels heldur áfram að lækka og hefur ekki verið lægri frá því fyrir aldamót. Stofn hlýra er enn nálægt sögulegu lágmarki en vísitala tindaskötu hækkar talsvert eftir langvarandi niðursveiflu. Vísitala grásleppu mældist í ár nálægt meðaltali áranna frá 1985.

DEILA