Fékk starfsmerki UMFÍ

Ungmennafélag Íslands veitti Sigríði Láru Gunnlaugsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra HSV, starfsmerki á nýafstöðnu þingi Héraðssambands Vestfirðinga.

Jón Aðalsteinn Bergsveinsson, kynningarfulltrúi UMFÍ og ritstjóri Skinfaxa, var gestur þingsins fyrir hönd UMFÍ og afhenti Sigríði Láru merkið.

Jón Aðalsteinn flutti gestum kveðju frá stjórn UMFÍ og hélt erindi um verkefni UMFÍ, ungmennaráðstefnuna Ungt fólk og lýðræði og Ungmennabúðir UMFÍ og hvatti þingfulltrúa til að kynna sér málið frekar. Þungamiðjan voru þó Unglingalandsmót UMFÍ, viðburðirnir fjórir í Íþróttaveislu UMFÍ og Landsmót UMFÍ 50+.

Jón las jafnframt upp þau góðu rök sem standa fyrir veitingu starfsmerkis UMFÍ. Ljóst er að Sigríður Lára á þau fyllilega skilið.

Sigga Lára hefur verið virk í íþróttalífi Ísafjarðarbæjar nánast frá fæðingu. Á yngri árum æfði hún aðallega fótbolta og skíði, spilaði meðal annars fyrsta meistaraflokksleikinn sinn 1981 og þann síðasta 2001. Hún var í stjórn meistaraflokks kvenna BÍ þegar það var endurvakið árin 2011-2014.

Starfskraftar Siggu Láru í sjálfboðaliðastarfi hafa einkum tengst fótbolta og skíðum. Hún var í mótsstjórn Skíðafélags Ísfirðinga til margra ára, í ritnefnd skíðablaðsins, skipulagði ásamt fleirum skíðavikuna og var þrekþjálfari hjá SFÍ 2012-2015.

Hún hefur verið afar virk í foreldrastarfi og sinnt þar ýmsum verkefnum, meðal annars sem tengiliður, liðsstjóri og fararstjóri í handbolta, fótbolta og skíðum. Þá má ekki gleyma því að Sigga Lára er sjúkraþjálfari og hefur það oft komið að góðum notum, því hún hefur sinnt íþróttameiðslum á öllum tímum sólarhrings upp í fjalli, inni á velli, heima í stofu og á vindsængum og dýnum í skólastofum um allt land og hjá iðkendum á öllum aldri.

Þá hefur Sigga Lára verið sjúkraþjálfari meistaraflokks karla í knattspyrnu frá 2011 og hefur það verið ómetanlegur stuðningur fyrir meistaraflokk að hafa hana alltaf tilbúna á bekknum með töskuna.

Sigga Lára var framkvæmdastjóri Héraðssambands Vestfirðinga (HSV) árin 2014-2020 og situr nú í stjórn afrekssjóðs HSV.

DEILA