Enn aukast verðmæti eldisafurða

Sjókvíar í Patreksfirði. Mynd: Aron Ingi Guðmundsson.

Á fyrstu 4 mánuðum ársins hafa verið fluttar út eldisafurðir fyrir 17,2 milljarða króna. Það er veruleg aukning frá sama tímabili í fyrra, eða sem nemur rúmum 32% í krónum talið.

Þar sem gengi krónunnar var að jafnaði tæplega 5% sterkara á fyrstu 4 mánuðum ársins en á sama tímabili í fyrra er aukningin nokkuð meiri í erlendi mynt eða sem nemur rúmum 38%.

Vart þarf að taka fram að útflutningsverðmæti eldisafurða hefur aldrei áður verið meira á fyrsta þriðjungi ársins. Verðmætin eru tæplega 15% af útflutningsverðmæti sjávarafurða á tímabilinu og það hlutfall hefur aldrei áður verið hærra.

Ætla má að aukninguna megi rekja til laxeldis en skipting niður á tegundir liggur ekki fyrir, þar sem einungis er búið að birta fyrstu bráðabirgðatölur um vöruskipti í apríl

DEILA