Þrír styrkir til Vestfjarða

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra hefur úthlutað styrkjum að fjárhæð 120 milljónum kr. til átta verkefna á vegum þriggja landshlutasamtaka sveitarfélaga.

Styrkjunum er ætlað að efla byggðir landsins og er úthlutað til sértækra verkefna á sóknaráætlunarsvæðum í samræmi við stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024 (aðgerð C.1). Alls bárust 24 umsóknir um styrki að fjárhæð tæpar 816 m.kr. fyrir árin 2022-2026. 

Vestfjarðastofa fyrir hönd Fjórðungssambands Vestfirðinga annaðist gerð umsókna vegna aðgerðar C1 í byggðaáætlun, sértæk verkefni Sóknaráætlanasvæða. Unnið var að gerð umsóknanna í samstarfi við þau sveitarfélög sem í hlut eiga sem eru Árneshreppur, Strandabyggð og Reykhólahreppur. 

Verkefnin sem hlutu stuðning voru: 

  • Undirbúningur og forsendugreining hitaveitu í Árneshreppi. Fjórðungssamband Vestfirðinga hlýtur styrk að fjárhæð 5.625.000 kr. á árinu 2022 til að undirbúa lagningu hitaveitu í Árneshreppi. Verkefnið felur í sér greiningu forsenda, hönnun, gerð fjárhagsáætlunar, samningagerð og stofnun rekstrarfélags.
  • Jarðhitarannsóknir við Gálmaströnd. Fjórðungssamband Vestfirðinga hlýtur styrk að fjárhæð 17.000.000 kr. á árinu 2022 til undirbúnings og grunnrannsókna vegna uppbyggingar nýrra atvinnutækifæra í Strandabyggð. Ljúka jarðhitarannsóknum og undirbúa vinnsluholu við Gálmaströnd í Steingrímsfirði.
  • Grænir iðngarðar á Reykhólum. Fjórðungssamband Vestfirðinga hlýtur styrk að fjárhæð 25.000.000 kr. árin 2022-2023. Hugmyndin með grænum iðngörðum er að auka aðdráttarafl svæðisins til fjárfestinga og nýsköpunar og auka þannig fjölbreytni í atvinnulífi og nýtingu á auðlindum svæðisins. Þörungamiðstöð Íslands verður kjarninn.

Öllum verkefnunum er ætlað að styrkja atvinnulíf og byggð á svæðum sem átt hafa sérstaklega undir högg að sækja varðandi fólksfækkun og einhæfni atvinnulífs. 

DEILA