Samgöngustofa hefur tekið saman skýrslu um umferðaslys árið 2021.
Árið 2021 var mjög sérstakt ár, bæði hvað varðar umferðaröryggi en einnig þjóðfélagið í heild. Var þetta annað árið í röð þar sem heimsfaraldurs gætti en árin 2020 og 2021 eru þó gerólík hvað varðar umferðaröryggið.
Um töluverða aukningu slysa og slasaðra er að ræða. Fjöldi slasaðra og látinna í fyrra voru 1162 einstaklingar en árið á undan voru það 1015. Árið í fyrra er reyndar undir 10 ára meðaltali frá 2012 til 2021 sem er 1219 og má því segja að til lengri tíma litið sé þróunin í rétta átt.
Fjöldi látinna og alvarlega slasaðra eykst fer úr 157 árið 2020 í 208 árið 2021 sem er um 32,5% hækkun. Meira er nú um að ungir ökumenn séu að lenda í slysum en árin á undan. Talsverð aukning er í fjölda slasaðra óvarinna vegfarenda og þá sérstaklega á rafhlaupahjólum.
Minna er um að börn á aldrinum 0-14 ára slasist. Sérstaklega fækkar slösuðum börnum í bifreiðum en hinsvegar fjölgar aðeins slösuðum börnum sem eru gangandi og hjólandi í þessum aldurshópi. Slysum sem rekja má til vanrækslu á notkun öryggisbelta fækkar og alvarlegum slysum og banaslysum vegna ölvunar og fíkniefnaaksturs fækkar.