Mikil aukning í framleiðslu á eldisfiski

Magn framleidds eldisfisks hefur margfaldast á síðustu árum og var rúmlega 53 þúsund tonn árið 2021 sem er 12.541 tonna aukning frá árinu 2020, en aukningin á milli 2019 og 2020 var um 6.540 tonn.

Laxeldi er meginuppistaða fiskeldis á Íslandi eða 90% af öllu fiskeldi. Eldi á bleikju var 5.390 tonn árið 2021 og eldi á regnbogasilungi var 951 tonn.

Rúmlega 522 manns starfa hjá fiskeldisfyrirtækjum á Íslandi árið 2020 og tæplega 600 manns árið 2021. Rekstrartekjur hafa tífaldast frá árinu 2010 og voru tæpir 40 milljarðar árið 2020. Áætlaðar tekjur fyrir árið 2021 eru tæpir 45 milljarðar miðað við veltu samkvæmt virðisaukaskattskýrslum. Útflutningsverðmæti fiskeldisafurða árið 2020 var tæplega 29 milljarðar og samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir 2021 verður útflutningsverðmætið rúmir 35 milljarðar króna.

Árið 2020 var Noregur stærsti framleiðandi á eldislaxi í Evrópu með 1,3 milljónir tonna á ári. Bretland framleiddi tæp 200 þúsund tonn og Færeyjar um 73 þúsund tonn. Ísland kom þar á eftir með um 34 þúsund tonn. Árið 2019 var framlett meira af eldislaxi í í Ástralíu, Bretlandi, Kanada, Rússlandi og Síle en á Íslandi, samkvæmt tölum frá Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO).

Íslendingar framleiddu mest allra þjóða af bleikju, eða um 6.322 tonn árið 2019 og 5.500 tonn árið 2020.

DEILA