Að sögn lögreglunnar á Vestfjörðum gengu hátíðarhöld og umferð vel þrátt fyrir mikinn fjölda gesta sem komu til Vestfjarða um nýliðna páska.
Samkvæmt umferðartölum Vegagerðarinnar voru bifreiðar sem fóru um Ísafjarðardjúp á einum sólarhring hátt í 800 þegar mest var.
Engin slys eða alvarleg umferðaróhöpp urðu og er það sérstakt fagnaðarefni. Lögreglan á Vestfjörðum lagði mikla áherslu á öflugt umferðareftirlit í umdæminu öllu og var sýnileg.
Alls voru 49 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur og einn þeirra, sem var mældur á 121 km hraða (þar sem hámarkshraði er 90 km) var í sama mund að nota farsíma án handfrjáls búnaðar. Sá sem hraðast ók var mældur á 138 km hraða.
Tveir ökumenn voru stöðvaðir grunaðir um að vera undir áhrifum áfengis. Annar þeirra á Patreksfirði en hinn í Skutulsfirði.
Þrisvar var lögreglunni tilkynnt um slagsmál sem áttu sér stað fyrir utan og inni á veitingastöðum á Ísafirði. Engin alvarleg meiðsl hlutust af.