Lóan er komin til Súðavíkur

Á heimasíðu Súðavíkurhrepps segir að Lóan sé komin til Súðavíkur og þar er birt kvæði Páls Ólafssonar um Lóuna.

Páll Ólafsson var fæddur á Dvergasteini í Seyðisfirði og alinn upp á Kolfreyjustað í Fáskrúðsfirði en þar var faðir hans, Ólafur Indriðason, prestur. Páll var bóndi á nokkrum bæjum á Austurlandi en lengst bjó hann á Hallfreðarstöðum í Hróarstungu. Hann var tvígiftur, átti fyrst Þórunni Pálsdóttur, en eftir að hún dó átti hann Ragnhildi Björnsdóttur. Hann unni Ragnhildi afar heitt og orti til hennar margar fallegar ástavísur. Páll var einstaklega vel hagmæltur og urðu margar lausavísna hans landfleygar. Þá orti hann og talsvert af lengri ljóðum. Skáldskapur hans er yfirleitt í rómantískum anda, léttur og lipur.

Lóan er komin að kveða burt snjóinn,
að kveða burt leiðindi, það getur hún.
Hún hefur sagt mér að senn komi spóinn,
sólskin í dali og blómstur í tún.
Hún hefur sagt mér til syndanna minna,
ég sofi of mikið og vinni ekki hót.
Hún hefur sagt mér að vaka og vinna,
vonglaður taka nú sumrinu mót.

https://youtu.be/IycjLaYajSY
DEILA