Yfir 650 þátttakendur í Fossavatnsgöngunni

Frá Fossavatnsgöngu.


Fossavatnsgangan, elsta skíðagöngukeppni Íslands, fer fram á Ísafirði dagana 31. mars-2. apríl.

Í ár eru yfir 650 þátttakendur frá 21 landi skráðir til leiks en keppt er í 50, 25 og 12,5 km göngu auk þess sem boðið er upp á styttri göngur fyrir fjölskyldur og börn.

„Það stefnir í hörkuflotta göngu hjá okkur í ár,“ segir Kristbjörn R. Sigurjónsson, starfsmaður Fossavatnsgöngunnar. „Aðstæður eru góðar og veðurspáin er frábær svo keppendur eiga von á góðu. Flestir þátttakendur eru frá Íslandi en við erum líka með yfir 250 manns sem koma frá öllum heimshornum, til dæmis 50 manns frá Bandaríkjunum og 79 frá hinum Norðurlöndunum.“

Að sögn Kristbjörns, eða Bobba, eins og hann er ætíð kallaður, er mikil tilhlökkun í bænum að geta aftur boðið gesti velkomna í tengslum við gönguna, en ekki hefur verið hægt að halda hefðbundna keppni síðustu tvö ár vegna samkomutakmarkana. „Við erum með fjölda sjálfboðaliða sem sjá til þess að gangan verði að veruleika og þeir leggjast allir á eitt til að bjóða upp á flotta göngu og góða skemmtun fyrir þátttakendur.“

Fyrsta Fossavatnsgangan fór fram árið 1935 og lengst af var aðeins keppt í einni vegalengd, u.þ.b. 20 km leið frá Vatnahnjúk í nágrenni Fossavatns yfir á Seljalandsdal. Síðar bættust fleiri vegalengdir við en árið 2004 var tekin upp keppni í 50 km göngu og það var þá sem keppnin fór að vekja meiri athygli erlendis. Gangan var tekin inn á mótaskrá Alþjóða skíðasambandsins, FIS, árið 2005 og síðan þá hefur fjöldi erlendra keppenda tekið þátt.

Fossavatnsgangan hefur verið fulltrúi vestanverðs landsins og vetraríþrótta í Fjölþrautafélaginu Landvættum frá því það var stofnað árið 2013.

DEILA