Vesturbyggð ráðgerir að taka upp heimastjórnir

Bíldudalur

Í drögum að samþykkt um stjórn Vesturbyggðar eru lagðar til breytingar sem snúa að nefndarskipan sveitarfélagsins.

Í samræmi við 38. gr. sveitarstjórnarlaga er gert ráð fyrir að kosið verði í þrjár heimastjórnir sem fara með afmörkuð málefni og málaflokka innan tiltekinna svæða innan Vesturbyggðar.

Heimastjórnirnar taka m.a. við málefnum hafna- og atvinnumálaráðs og menningar- og ferðamálaráðs og að hluta þeim málefnum sem skipulags- og umhverfisráð ber skv. núgildandi samþykktum að fjalla um. Þá er mælt fyrir um breytingar á hlutverki skipulags- og umhverfisráðs sem verður umhverfis- og framkvæmdaráð og mun það m.a. gegna hlutverki hafnarstjórnar skv. hafnalögum.

Gert er ráð fyrir að í hverri heimastjórn verði kosnir tveir aðalfulltrúar og tveir til vara en formaður verði skipaður af bæjarstjórn og skal hann vera aðalmaður í bæjarstjórn. Við vinnslu draganna var m.a. litið til samþykkta um stjórn Múlaþings, þar sem heimastjórnir hafa verið starfandi.

Samkvæmt drögunum yrðu heimastjórnirnar eftirfarandi:

  • Heimastjórn Patreksfirði
  • Heimastjórn Arnarfirði
  • Heimastjórn Barðastrandarhrepps og Rauðasandshrepps

Valdmörk heimastjórna eru miðuð við sveitarfélagsmörk Patrekshrepps, Bíldudalshrepps, Barðastrandahrepps og Rauðasandshrepps 10. júní 1994.

DEILA