Veggripsmælar í Vegagerðarinnar

Vegagerðin gerði auknar kröfur til hemlunarviðnáms á nýju malbiki árið 2021. Í kjölfarið var tækjabúnaður Vegagerðarinnar uppfærður og tveir nýir veggripsmælar (skiddometer) keyptir frá Moventor í Finnlandi. Einn er í Miðstöð í Garðabæ og annar á Akureyri.

Á síðasta ári var komið á nýju verklagi sem snýr að öryggi við og eftir malbiksframkvæmdir. Um er að ræða svokallaða Öryggisúttekt á nýlögðu malbiki en í henni er farið yfir helstu atriði er snúa að öryggi vegfarenda.

Í því felst meðal annars að þegar framkvæmdum er lokið er hámarkshraði lækkaður niður í 50 km/klst. þar sem það á við og honum haldið þannig uns Vegagerðin hefur fengið niðurstöður um að hemlunarviðnám kaflans standist ýtrustu kröfur. Einnig eru sett upp viðvörunarmerki við hvern kafla sem mögulega gæti verið háll í bleytu og þau látin standa í 14 daga. Loks er hemlunarviðnám nýs malbiks mælt með veggripsmælunum. Mælarnir eru því afar mikilvæg tæki þegar kemur að umferðaröryggi.

En hvernig skyldu mælingar á hemlunarviðnámi fara fram? Veggripsmælarnir eru festir aftan í bíla og svo er ekið af stað með þá á þeim vegköflum sem til stendur að mæla. Mælihjóli undir ákveðnu álagi er slakað niður þegar bílinn er á ferð og við það fæst út mæligildi. Vatni er á sama tíma sprautað á yfirborð vegar fyrir framan hjólið, þannig að það er mælt á blautu yfirborði. Gildið sem fæst er hlutfall krafta sem verka á mælihjólið. Mæligildið er á bilinu 0-1. Eftir því sem gildið er hærra er hemlunarviðnámið betra.

Það sem er nýtt við þessa gerð af veggripsmælum er að þeim er stjórnað þráðlaust með lítilli spjaldtölvu úr bílnum sem dregur þá. Áður var stór og þykkur kapall tengdur við gamla mælinn og þurfti að nota stóra og fyrirferðarmikla tölvu til að stjórna honum. Einnig eru niðurstöður mælinga aðgengilegar í skýinu um leið og mælingu er lokið og getur hver sá sem er með aðgang að því vefsvæði skoðað gögnin.

Niðurstöðurnar er settar fram með staðsetningu á korti með helstu niðurstöðum eins og hámarks-, lágmarks- og meðaltalsgildi, ásamt hraða ökutækis. Áður þurfti að fara fram nokkur gagnaúrvinnsla eftir hverja mælingu til að fá niðurstöður, sem gat tekið nokkurn tíma ef mikið var að gera.

Að auki var vatnsforðabúr/sekkur uppfærður sem gerir Vegagerðinni kleift að mæla meira en áður án áfyllingar, sem er mikill kostur. Þá má nefna að með þessum uppfærslum á mælibúnaði er nóg að einn maður sjái um mælingarnar en áður þurfi tvo til þess.

Allir kaflar með nýlögðu malbiki eru mældir með veggripsmælum. Starfsmenn á þjónustustöð Vegagerðarinnar í Garðabæ hafa séð um mælingar á Suður- og Vestursvæði með miklum sóma og oft verið að mæla á þeim tímum sem hinn almenni borgari sefur. Það sama á við um starfsmenn Norðursvæðis, en þeir sjá um mælingar á Norður-, og Austursvæði.

Mælingar fyrir árið 2021 hafa komið mjög vel út og eru undantekningalaust vel yfir viðmiðum Vegagerðarinnar og ber að hrósa verktökum Vegagerðarinnar fyrir það. Meðaltalsgildi allra mælinga var að dreifast frá ca. 0,75 – 0,95 og að meðaltali 0,86. 

DEILA